Tandur hf., sem framleiðir ýmsar hreinlætisvörur, hagnaðist um rúmlega 213 milljón krónur á síðasta rekstrarári. Ríflega 12% tekjuaukning varð hjá félaginu en það má að hluta til rekja til aukinnar eftirspurnar á sótthreinsispritti.
Tekjur námu rétt tæplega 1,8 milljarði króna og jukust um 200 milljónir milli ára. Kostnaðarverð seldra vara var 1,5 milljarðar og hækkaði um 137 milljónir. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir var því rétt rúmar 300 milljónir eða 65 milljónum hærri en 2019.
Eignir félagsins eru metnar á 600 milljónir en þriðjungur þess eru birgðir. Eignir hækkuðu um tæplega 110 milljónir milli ára en það má rekja til hækkunar á handbæru fé sem var 186 milljónir í árslok. Eigið fé er 397 milljón krónur rúmar en skuldir 309 milljónir. Svo til allar skuldir eru í formi skammtímaskulda ef frá er skilin rúmlega átta milljóna tekjuskattsskuldbinding.
Á síðasta rekstarári greiddi félagið 140 milljónir í arð til hluthafa sína en þar áður höfðu arðgreiðslur numið 165 milljónum. Stjórn félagsins lagði til að að þessu sinni yrðu greiddar 210 milljón krónur í arð til hluthafans Sjávargrundar, sem er að fullu í eigu Sjávarsýnar en það er að stærstum hluta í eigu Bjarna Ármannssonar.
„Starfsemi félagsins gekk mjög vel á árinu þrátt fyrir mikla óvissu á nokkrum af stærstu mörkuðum félagsins. Mjög dró úr sölu á mörkuðum tengdum ferðaþjónustu í kjölfar takmarkana vegna Covid-19. Á hinn bóginn jókst sala mjög á vörum tengdum persónulegum sóttvörnum þrátt fyrir erfitt aðgengi að hrávöru á heimsvísu,“ segir í skýrslu stjórnar.
Í skýrslu stjórnar segir að á ákveðnum mörkuðum ríki talsverð óvissa sem valdi verðhækkunum. Sökum þess sé talsvert fé bundið í þeim. Takmarkað aðgengi og hátt verð komi til með að takmarka laust fé félagsins fram eftir þessu ári.
Ársverk félagsins voru 37 í fyrra og námu laun og launatengd gjöld tæplega 400 milljónum. Laun til stjórnenda námu 40,5 milljónum.