Nýtt sprotafyrirtæki, sem ber heitið Arctic Glow, hefur verið stofnað af fimm menntaskólanemum á þriðja ári í Verzlunarskóla Íslands. Fyrirtækið hefur það markmið að sameina íslenska hefð og nýsköpun í matvælaframleiðslu.

Stofnendur Arctic Glow eru Katla Sigurþórsdóttir, Dagur Eiríksson, Aron Bjarni Arnórsson, Guðmundur Árni Jónsson og Arngrímur Egill Gunnarsson.

Fyrsta vörulína fyrirtækisins kallast Arctic Skyr og verður kynnt í keppni ungra frumkvöðla, sem haldin verður í Smáralind 5. apríl nk. Þar mun Arctic Glow jafnframt keppa um sæti í lokakeppninni en hún verður haldin í Aþenu.

Fyrirtækið segist leggja áherslu á heilsuvörur sem stuðli að vellíðan og betri heilsu Íslendinga.

„Varan Arctic Skyr er byltingarkennd viðbót við hina rótgrónu skyrhefð Íslendinga. Með því að bæta kollageni í skyr verður varan einstök á heimsvísu og mun höfða til bæði íslensks markaðar og alþjóðlegra neytenda,“ segir í tilkynningu.

Arctic Glow nýtur stuðnings frá Mjólkursamsölunni og Kavíta, sem hjálpa við þróun vörunnar. Skyrið mun jafnframt koma út í þremur bragðtegundum, hreinu skyri, bláberjaskyri og jarðarberjaskyri.