Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja, hefur fyrir hönd Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum sent áskorun á ríkisstjórnina, Alþingi, Landsvirkjun og Orkustofnun þar sem krafist er aðgerða í orkumálum.
„Vilji er allt sem þarf,“ segir í áskoruninni en Íris er jafnframt formaður SSKS.
Samtökin krefjast þess að Alþingi setji lög sem tryggi rétt almennings og minni fyrirtækja til að fá raforku og að raforkuverð til húshitunar á köldum svæðum verði ásættanlegt og ekki hærra en meðalverð hjá hitaveitum.
Samtökin krefjast þess einnig að raforka til húshitunar verði tryggð og að raforka til minni fyrirtækja verði „á sanngjörnu verði.“
Ríkið á einnig að finna nýjar leiðir til þess að jafna kostnað við húshitun „þar sem niðurgreiðslukerfið sem er í dag er komið að endastöð.“
Þess er jafnframt krafist að farið verði í framkvæmdir við nýjar virkjanir til að mæta orkuþörf landsmanna. Innviðir bættir svo hægt sé að flytja raforku á þá staði sem þarf á hverjum tíma.
„Raforkuskortur hamlar atvinnuuppbyggingu. Mikilvægt er að til verði raforka fyrir fyrirtæki alls staðar á landinu. Nú er kominn tími til að fara strax í framkvæmdir. Framkvæmdir í raforkumálum á Íslandi sem verða öllum til hagsbóta, það er ekki lengur tími til að hugsa bara, tími framkvæmda er kominn.“