Verne Global áformar að fjárfesta fyrir hátt í 70 milljarða króna í gagnaveri sínu á Ásbrú í Reykjanesbæ á fimm ára tímabili. Fyrirtækið hyggst ráðast í umfangsmikla uppbyggingu til að auka afkastagetu gagnaversins þannig að uppsett afl fari úr núverandi 40 megavöttum (MW) í yfir 96 MW.
Móðurfélag Verne Global upplýsti nýlega um að áætluð fjárfesting á Íslandi á árunum 2023-2027 hljóði upp á 391 milljón punda og að þar af myndi fjárfesting í ár nema um 95 milljónum punda.
Til samanburðar gerðu fyrri áform félagsins ráð fyrir að fjárfesting þess á umræddu fimm ára tímabili yrði helmingi minni eða í kringum 172 milljónum punda. Áætluð fjárfesting félagsins á tímabilinu hefur því aukist um 219 milljónir punda eða um rúma 38 milljarða króna.
Breska fjárfestingarfélagið Digital 9 Infrastructure (D9) keypti Verne Global í september 2021 á 231 milljón punda eða sem nam þá rúmum 40 milljörðum króna. Stærstu hluthafar Verne Global fyrir söluna voru framtakssjóður Stefnis, góðgerðasjóðurinn Wellcome Trust, fjárfestingarsjóðurinn General Catalyst og Novator Partners en síðastnefndu tvö félögin stofnuðu Verne árið 2007.
Í kjölfar kaupanna tilkynnti D9, sem er skráð í kauphöllina í London, um fjárfestingu að fjárhæð 93 milljónir dala eða sem nam þá 12 milljörðum króna, í stækkun á gagnaverinu til að auka afköst um 20,7 MW, upp í tæplega 40 MW.
Samkvæmt ársreikningi D9 hafði félagið í árslok 2022 fjárfest í Verne Global á Íslandi fyrir tæplega 281 milljón punda eða sem nemur 49 milljörðum króna á gengi dagsins. Sú fjárhæð inniheldur kaupverðið og fjárfestingu í stækkun á gagnaverinu.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.