Aramco, stærsta olíufyrirtæki heims, hefur ákveðið að halda sér við ársfjórðungslega arðgreiðslu upp á 31 milljarð dala þrátt fyrir að hagnaður félagsins dróst saman. Um er að ræða stærstu arðgreiðslu nokkurs félags í sögunni.
Aramco, sem er í meirihlutaeigu ríkissjóðs Sádi-Arabíu, skilaði 27,6 milljarða dala hagnaði á þriðja ársfjórðungi, sem er um 15% lægra en á sama tímabili í fyrra. Afkoma félagsins var undir spám greiningaraðila, samkvæmt Bloomberg.
Tekjur Aramco drógust saman um 5% milli ára og námu 111 milljörðum dala á fjórðungnum. Fram kemur að framleiðsla félagsins hafi ekki verið minni frá árinu 2021 og að olíuverð hafi lækkað um 13% á síðustu fjórum mánuðum. Horfur á olíumarkaðnum hafi versnað vegna áhyggja um eftirspurn.
Aramco er nú að greiða út meira en sem nemur hagnaði félagsins. Í umfjöllun Bloomberg segir óvíst hversu lengi félagið geti haldið áfram á sömu braut en það muni sennilega reyna á arðgreiðslugetu olíufélagsins á næsta ári.
Arðgreiðslur félagsins eru afar mikilvægar fyrir ríkissjóð Sádi-Arabíu en félagið er í 81% eigu sádi-arabíska ríkisins og 16% í eigu þjóðarsjóðs Sáda.