BlackRock, stærsta eignastýringafélag í heiminum í dag, hefur ákveðið að segja sig úr loftlagssamkomulagi Sameinuðu þjóðanna sem flest öll fjármálafyrirtæki skrifuðu undir árið 2021.
Líkt ogViðskiptablaðið greindi frá í vikunni ákváðu stærstu fjárfestingabankar Bandaríkjanna að segja sig úr samkomulaginu á dögunum.
Samkomulagið hét Net-Zero Banking Alliance en með því lofuðu fjármálafyrirtækin að öll lána- og fjárfestingarbankastarfsemi myndi taka mið af kolefnishlutleysi fyrir árið 2050.
Morgan Stanley, Citi Group og Bank of America ákváðu að byrja árið á kveðja samkomulagið og síðar í vikunni bættist JPMorgan Chase, stærsti banki Bandaríkjanna, við.
Wells Fargo og Goldman Sachs sögðu sig úr samkomulaginu undir lok síðasta árs.
Samkvæmt The Wall Street Journal er sérstaklega athugavert að BlackRock ákveði að kveðja samkomulagið þar sem eignastýringafélagið hefur árum saman lagt mikla áherslu á sjálfbærni og umhverfismál.
Larry Fink, forstjóri BlackRock, skrifaði ítarlega grein um umhverfismál fyrir fjórum árum síðan þar sem hann sagði að áhættan af loftlagsmálum væri í reynd áhætta fyrir fjárfesta og fjármagn.
Afstaða Fink til loftlagsaðgerða hefur mætt harðri andstöðu á síðastliðnum árum.
Að sögn WSJ hefur hann dregið úr örlítið úr umhverfisstefnu félagsins eftir að BlackRock var stefnt árið 2023 fyrir að hafa ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni nægilega vel í tengslum við fjárfestingar í loftlagstengdum verkefnum.