DNB, stærsti banki Noregs, hefur sett sér markmið um að arðsemi eiginfjár bankans á árunum 2025-2027 verði yfir 14%. Til samanburðar hljóðaði fyrra arðsemismarkmið bankans upp á arðsemi eiginfjár yfir 13%. Tilkynnt var um þetta á markaðsdegi bankans í dag.
Þá hefur bankinn tvöfaldað markmið sitt um vöxt þóknana- og þjónustutekna úr 4-5% í yfir 9%.
Bankinn hélt markmiðum sínum óbreyttum um að halda kostnaðarhlutfalli undir 40%, að arðgreiðsluhlutfall verði yfir 50% og að hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 sé yfir 18,8%.
Í frétt Bloomberg segir að með því að stefna að auknum tekjuvexti af þóknana- og þjónustutekjum sé bankinn að undirbúa sig fyrir væntanlegar stýrivaxtalækkanir sem muni setja þrýsting á vaxtamun.
Bankinn tilkynnti í september um að hann hyggist fækka störfum um 500, eða sem samsvarar um 5% af stöðugildum bankans, á næstu sex mánuðum til að undirbúa sig fyrir lægri vexti og aukna samkeppni.
Seðlabanki Noregs hefur enn ekki hafið vaxtalækkunarferli en hagfræðingar gera flestir ráð fyrir að hann byrji að lækka stýrivexti sína í lok fyrsta ársfjórðungs.