DNB, stærsti banki Noregs, hefur náð samkomulagi um kaup á öllu hlutafé sænska fjárfestingarbankans Carnegie fyrir 12 milljarða sænskra króna, eða sem nemur um 157 milljörðum íslenskra króna.

DNB gerir ráð fyrir að hægt verði að ganga frá kaupunum á fyrri helmingi næsta árs en gerðir eru hefðbundnir fyrirvarar við viðskiptin.

Tekjur Carnegie skiptast þannig að 56% koma frá fjárfestingarbankaþjónustu og 44% frá eignastýringarsviði bankans. Alls starfa um 850 manns fyrir bankann á Norðurlöndunum.

Bankastjóri DNB segir að Carnegie falli vel við stefnu bankans um að auka vægi þjónustutekna fyrir bankasamstæðuna.

Í tilkynningu á vef DNB er lögð mikil áhersla á að samruninn veiti bönkunum tækifæri til að styrkja stöðu sína á sviði fjárfestingarbankastarfsemi, verðbréfamiðlunar og eignastýringar á öllum Norðurlöndunum.

Stefnt er að því að markaðsviðskiptasvið bankans, DNB Markets, muni taka upp nafnið DNB Carnegie, gangi samruninn eftir.