Banda­ríski fjár­festinga­sjóðurinn Bain Capi­tal, sem er stærsti hlut­hafi Icelandair, er sagður vera að fjár­magna yfir tveggja milljarða dala yfir­töku­til­boð Edgar Bron­f­man jr. í National Amusement, sem er móður­fé­lag Paramount Global sam­stæðunnar.

Paramount Global, sem á sjón­varps­stöðvarnar CBS, MTV, Nickelodeon á­samt Paramount kvik­mynda­verinu, hefur verið í eigu Red­stone-fjöl­skyldunnar í næstum þrjá ára­tugi.

Shari Red­stone, sem erfði ráðandi hlut í sam­stæðunni frá föður sínum, á­kvað ný­verið að reyna að selja hluti sína en á­kvörðun hennar hefur valdið tölu­verðri ó­kyrrð innan sam­stæðunnar.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal byrjaði Shari að huga að því að breyta hlutum sínum í hand­bært fé í fyrra en hún er sögð hafa fundið veru­lega fyrir því fjár­hags­lega þegar sam­stæðan á­kvað að draga úr arð­greiðslum.

Skömmu síðar á­kvað David Elli­s­on, for­stjóri Skydance Media og sonur milljarða­mæringsins Larry Elli­s­on, að kanna á­huga Shari á mögu­legum sam­runa fyrir­tækjanna tveggja.

Við­ræður milli stjórnar National Amusement og Skydance eru í gangi um þessar mundir.

Nú hefur Bron­f­man bæst við í hóp fjár­festa sem vilja kaupa Paramount-sam­stæðuna en Bron­f­man var áður for­stjóri Warner Music.

Yfir­töku­til­boð Bron­f­man og Bain Capi­tal er sagt hljóða upp á 2 til 2,5 milljarða Bandaríkjadali sem samsvarar um 278 til 347 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins.

Kvik­mynda­fram­leiðandinn Ste­ven Paul, á­samt hópi fjár­festa, lagði ný­verið fram þriggja milljarða til­boð í hlut National Amusement í Paramount.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal er með öllu ó­víst hversu al­var­lega Shari Red­stone sé að í­huga til­boð fjár­festa­hópanna tveggja á meðan sam­runa­við­ræður eru í gangi við Skydance.

Vænlega boðið í hlut Redstone

Ef Shari tekst að selja Paramount til Skydance, Bronfman eða Paul fengi hún, samkvæmt heimildum WSJ, vænlega greitt fyrir hlutabréf sín í reiðufé en þeim fylgir um 77% atkvæðisréttur innan samstæðunnar.

Hlutabréfaeigendur án atkvæðisréttar fá greitt með bréfum í hinu sameinaða félagi.

Núverandi markaðsvirði hlutar Shari er um 750 milljónir Bandaríkjadala og fengi hún því vænlega greitt fyrir sinn hlut.

Aðrir hluthafar létu í sér heyra í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum þegar samrunaviðræður við Skydance hófust en þeir segja að samruninn sé frábær fyrir Shari Redstone en slæmur fyrir Paramount-samstæðuna.