Olíuflutningaskip með rúmlega 1,5 milljónir lítra af olíu sökk skammt frá höfuðborg Filippseyja í dag og olli stórfelldum olíuleka. Sextán skipverjum á skipinu MT Terra Nova var bjargað en eins áhafnarmeðlims er enn saknað.
Að sögn samgönguráðherra Filippseyja, Jaime Bautista, varð skipið fyrir barðinu á sterkum vindáttum og miklum öldum þegar slysið átti sér stað.
Slysið kemur í kjölfar fellibylsins Gaemi sem lagði stóran hluta Manila og úthverfi þess á kaf. Fellibylurinn er nú kominn til Taívan þar sem þrír hafa látið lífið og hundruð annarra særst.
MT Terra Nova var á leið til borgarinnar Iloilo á Filippseyjum þegar skipið sökk og hefur skilið eftir sig nokkurra kílómetra langan olíuleka. Strandgæslan þar segir að skipið hafi farið á hvolf áður en það sökk.
Lekinn er sagður vera sá stærsti í sögu Filippseyja en rúmt ár er síðan annað olíuflutningaskip, sem flutti 800 þúsund lítra af olíu, sökk undan strönd Oriental Mindoro á Filippseyjum.