Kaffihúsakeðjan Starbucks hefur ákveðið að hætta starfsemi í Rússlandi eftir 15 ára rekstur vegna innrásar rússneska hersins í Úkraínu. Starbucks neitaði að gefa upp fjárhagsleg áhrif ákvörðunarinnar en starfsemin er þó talin vera veigalítill hluti af sölu félagsins, að því er kemur fram í frétt WSJ.
Starbucks, sem veitti fyrsta sérleyfissamninginn í Rússlandi árið 2007, tilkynnti í dag að til stæði að vinda ofan af starfsemi í 130 kaffihúsum þar í landi. Tæplega tvö þúsund starfsmenn félagsins í Rússlandi fá laun greidd fyrir sex mánuði.
Rússland var meðal þeirra þjóða sem Starbucks eyrnamerkti fyrir áratug síðan sem möguleg vaxtarsvæði.
Sjá einnig: Kaupir 850 McDonald’s staði í Rússlandi
Starbucks fylgir í fótspor McDonald‘s sem tilkynnti í síðustu viku um fyrirhugaða sölu á öllum veitingastöðum sínum í Rússlandi. Skyndibitastaðurinn hyggst alfarið hætta starfsemi.