Samkvæmt Hagsjá Landsbankans hefur starfandi í byggingariðnaði fjölgað hratt eftir að hagkerfið byrjaði að taka við sér eftir kórónuveirufaraldurinn.
Fjöldi starfandi í geiranum fór niður í 14 þúsund á tímum faraldursins en nú starfa þarf um 18 þúsund manns, sem eru álíka margir og um mitt ár 2018.
Landsbankinn bendir þó á að hér á við um alla sem starfa í byggingargeiranum en ekki bara þá sem starfa við íbúðauppbyggingu en erfitt er að segja til um hvernig sá fjöldi skiptist.
Samkvæmt könnun Seðlabankans meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækjanna virðist eftirspurn eftir starfsfólki í greininni hafa minnkað á síðustu mánuðum en þó er hún mun meiri en í öðrum atvinnugreinum.
Einn helsti mælikvarðinn til að fylgjast með krafti í byggingargeiranum er að skoða innflutning á byggingarefnum, sérstaklega timbri.
Samkvæmt Hagsjá Landsbankans hefur innflutningur á helstu byggingarefnum aukist um næstum 50% frá því á miðju síðasta ári.
„Hér ber aftur að hafa í huga að erfitt er að segja nákvæmlega til um hversu stór hluti byggingarefnisins er ætlaður í íbúðauppbyggingu, en þróunin styður við gögn um nokkuð kröftuga fjárfestingu í íbúðum og atvinnuvegum, og einnig aukna veltu í byggingariðnaði síðustu ár.“