Auk þess að reka nokkrar rekstrareiningar hér á landi er Kvika með starfsemi í Bretlandi í gegnum dótturfélagið Kviku Securities. Þá festi Kvika kaup á fasteignalánafyrirtækinu Ortus Secured Finance fyrir tæplega tveimur árum. Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku, segir starfsemina í Bretlandi hafa gengið undir áætlunum, sérstaklega undanfarin tvö ár. „Við erum í grunninn með mjög öfluga starfsemi í Bretlandi. Ortus er afar vel mannað og gæði eigna félagsins eru mjög mikil, sem og arðsemi eigna. Þá erum við með mjög gott fólk í eignastýringu og fyrirtækjaráðgjöf úti í Bretlandi sem hafa verið að vinna að mjög vel heppnuðum verkefnum sem íslenskir fjárfestar hafa tekið þátt í.“

Erfiðar ytri aðstæður hafi fyrst og fremst valdið því að ekki hafi náðst sú arðsemi út úr bresku starfseminni sem vonir stóðu til. „Á síðustu 12-18 mánuðum hækkuðu vextir í Bretlandi mjög ört og það tók smá tíma fyrir okkur að hækka útlánavexti. Vaxtamunur minnkaði því tímabundið mjög mikið en er nú að komast í fyrra horf. Stór hluti af okkar áætlunum fyrir útlánastarfsemina í Bretland var að geta nýtt fjárhagslegan styrkleika bankans til þess að fjármagna vöxtinn og að endurfjármagna óhagstæðari lán, eins og við gerðum þegar við keyptum Lykil, Netgíró og Aur. Það hefur aftur á móti reynst erfitt fyrir okkur að eiga við erlenda markaði þar sem aðgengi að lánsfjármagni hefur verið mun erfiðara en í áratug á undan og kjörin sömuleiðis verið mun verri,“ segir Ármann og bætir við:

„Við stefndum á að endurfjármagna Ortus en þó að bankinn hafi náð að styrkja félagið á undanförnum misserum höfum við þurft að fresta því að ráðast í meiriháttar endurfjármögnun á skuldum þess. Við höfum hins vegar orðið þess vör á undanförnum vikum og mánuðum að erlendir lánsfjármagnsmarkaðir eru orðnir talsvert betri en síðustu 12-18 mánuði á undan. Ég er því vongóður um að staða þessara markaða muni batna á næstunni, sem skilar sér svo í bættri arðsemi af Bretlandsstarfseminni.“

Nánar er rætt við Ármann í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast viðtalið í heild sinni hér.