Upplýsingatæknifyrirtækið Kolibri hlaut á dögunum hæstu einkunn Great Place To Work og skipar þar með efsta sæti lista GPTW yfir bestu íslensku vinnustaðina. GPTW er alþjóðleg stofnun um vinnustaðamenningu.

Kolibri var stofnað 2007 og samanstendur af hópi hönnuða, forritara og ráðgjafa. Í byrjun árs 2023 segist fyrirtækið hafa ná jöfnu kynjahlutfalli en árið 2020 var hlutfall kvenna í upplýsingatækni 17% í Evrópu og 24% hjá Kolibri.

„Þegar fólk nýtur sín mun það gera frábæra hluti. Hjá okkur eru engir stjórnendur og allar ákvarðanir, hvort sem þær snúa að rekstri félagsins eða verkefnum, eru teknar af fólki sem hefur þekkingu og áhuga á að leggja sitt af mörkum," segir Anna Signý Guðbjörnsdóttir, talsmaður Kolibri.

Anna segir að launakerfi fyrirtækisins sé til að mynda opið sem þýðir að allt starfsfólk getur séð laun hvert annars, séð launaþróun og fjárhagsbókhald fyrirtækisins. „Allt starfsfólkið kemur saman einu sinni í viku og talar um líðan sína og tilfinningar, hvort heldur það tengist vinnu eða einkalífi, og lofar að vera til staðar fyrir hvert annað.”