Alvarlegt atvik átti sér stað fyrir utan veitingastaðinn Álfinn í Hólagarði síðastliðinn sunnudag þar sem hópur ungmenna réðst að tilefnislausu á gesti krárinnar meðan þau stóðu fyrir utan staðinn að njóta veðursins.
Ungmennin voru meðal annars vopnuð hnífum og varð einn viðskiptavinurinn fyrir stungu á hendi. Að sögn eiganda er hópurinn vel kunnugur íbúum hverfisins en um sé að ræða ungmenni í grunnskólum hverfisins.
Eigandi Álfsins í Efra-Breiðholti segir í samtali við Viðskiptablaðið að starfsmenn hafi verið fljótir að hringja á lögregluna eftir árásina, sem hafi síðan mætt og handtekið tvo viðskiptavini sem höfðu orðið fyrir árásinni.
Hún telur að ungmennahópurinn hafi mætt á barinn í þeim eina tilgangi að vera með vandræði og að starfsfólk Álfsins sé mjög skelkað eftir árásina.
„Ég er búin að vera eigandi hérna í sjö ár og hef ekki orðið vör við neitt svona í gegnum allan þann tíma, en núna nýlega hefur hins vegar orðið sprengja í þessu og okkur stendur ekki á sama. Maður spyr sig líka, eftir umræðuna með Mjóddina og Breiðholtsskóla, af hverju það sé ekki hægt að bregðast við þessu.“
Hún bætir við að lögreglan hafi verið mjög fljót að mæta á barinn einfaldlega vegna þess að lögreglan hafi verið að sinna öðru útkalli í Hólabrekkuskóla á sama tíma í tengslum við önnur ungmenni sem sögð voru vopnuð hnífum.
„Starfsfólki mínu líður ekki vel hérna eftir þetta atvik. Það var fullt af fullorðnu fólki sem kom út til að stoppa þetta en hópnum gat ekki verið meira sama. Einn strákurinn reif svo bara kjaft þegar lögreglan var að fylgja honum frá svæðinu og spurði gestina hvort þau vildu að hann myndi stinga þau líka, með lögguna við hliðina á sér.“
Eigandi hefur nú ítrekað við starfsfólk Álfsins að skilja barinn aldrei eftir ómannaðan og að hika ekki við að nota neyðarhnappinn ef slíkt atvik skyldi endurtaka sig. „Við vitum aldrei hvenær eða hvort þeir koma aftur hingað inn.“
Fleiri fyrirtæki í hverfinu á nálum
Að sögn eiganda eru fleiri fyrirtæki í hverfinu uggandi yfir ástandinu og segir að starfsfólk sjoppa í nágrenninu þori til að mynda ekki að bregðast við þar sem þau séu hrædd vegna ágangs ungmennanna.
„Ég ætla ekki að fara að slást við krakka með hnífa, því þá verð ég handtekinn en þau fá bara að labba í burtu.“
Eigendur nærliggjandi sjoppu hafa þá meðal annars neyðst til að setja upp stálgrind eftir að rúður voru brotnar við aðalinngang verslunarinnar.
„Það eru börn sem þora ekki að fara ein til að kaupa sér ís. Einn pabbinn sagði mér að börnin þora ekki lengur að fara þangað fótgangandi og að fjölskyldur vilji frekar fara í bíltúr eitthvert annað til að fá sér ís.“
Húsverði Hólagarða hótað
Viðskiptablaðið ræddi meðal annars við húsvörðinn í Hólagörðum sem segist skynja auknar áhyggjur meðal verslana í samstæðunni eftir árásina en hann hefur áður fyrr þurft að hafa afskipti af hinum umræddu ungmennum í húsinu.
„Þeir voru til dæmis hérna á ganginum í gær og ég lét mig bara hverfa. Ég ætla ekki að fara að slást við krakka með hnífa, því þá verð ég handtekinn en þau fá bara að labba í burtu.“
Hann segir að ungmennin hópi sig oft saman í Hólagörðum og séu gjarnan til vandræða. Hann hefur meðal annars þurft að læsa almenningssalernum í húsinu þar sem drengirnir eigi það til að vefja jónur inni á salernum.
Húsverðinum hefur meðal annars verið hótað í starfi og minnist á atvik þar sem hann þurfti að stöðva ungmennin sem voru keyrandi um á rafhlaupahjólum. Hann sagði þeim að það væri bannað að vera á hjólunum inni í húsinu en að þau mættu ganga með þau.
„Þá brunar hann fram hjá mér og ég kem þá við öxlina á honum til að segja aftur að þetta mætti ekki. Hann fer þá af hjólinu og segir að ég megi ekki snerta hann þar sem hann væri af erlendu bergi brotinn. Þetta er bara orðið skelfilegt.“
Þurfa að geta varið sig
Eigandi Álfsins segir að hin umrædda árás hafi sýnt henni að þessi hópur ungmenna svífst einskis. Þegar ráðist var til atlögu hafi fullorðið fólk á staðnum sagt þeim til syndanna og reynt að stöðva árásina en að þau hafi engu að síður haldið áfram sama hver skarst í leikinn.
„Þeir vita að þar sem þau eru börn þá má ekkert gera við þau vegna þessara barnaverndunarlaga. Við hljótum samt hins vegar að mega verja okkur ef svona kemur upp á.“
Hún segir að hópurinn sé af erlendu bergi brotinn en ítrekar að málið eigi ekki að snúast um þjóðerni. Helmingur starfsfólksins á Álfinum sé til að mynda erlent og að það hafi aldrei verið nein dómgæsla á þann breiða kúnnahóp sem sækir barinn.
„Ef einhver fer hins vegar að haga sér eins og hálfviti þá lokum við hurðinni. Þetta er hins vegar allt annað. Mér brá svo mikið eftir þetta að ég var rúman klukkutíma að ná mér niður. Bæði ég og starfsfólk mitt höfum verulegar áhyggjur af þessu, ég bara vissi ekki að börn gætu verið svona svakalega grimm.“