Rúmlega 1.000 starfsmenn Amazon mættu í höfuðstöðvar fyrirtækisins í Seattle í vikunni til að mótmæla áformum fyrirtækisins um skikka starfsmenn til að mæta aftur til vinnu. Margir starfsmenn Amazon hafa hingað til fengið að vinna heima sökum heimsfaraldurs.
Mótmælin voru skipulögð af hagsmunahópi starfsmanna fyrirtækisins og að sögn mótmælenda vildu starfsmenn einnig vekja athygli á slæmri umhverfisstefnu Amazon.
Skipuleggjendur segja að starfsandi innan fyrirtækisins sé í sögulegu lágmarki og hafa starfsmenn kvartað undan því sem þeir kalla „skammsýnar ákvarðanir“ meðal stjórnenda.
Amazon hefur undanfarið neyðst til að bregðast við mikilli óvissu á markaðnum og hefur sala fyrirtækisins eins dregist saman. Rúmlega 27.000 starfsmönnum hefur verið sagt upp síðan í janúar og hefur fyrirtækið einnig dregið verulega úr fjárfestingum.
„Markmið okkar er að breyta núverandi stefnu Amazon sem við teljum hafa skaðleg áhrif á litað fólk, konur, fólk með fötlun, samkynhneigða og aðra minnihlutahópa,“ segja skipuleggjendur.