Starfs­menn kín­verska sam­fé­lags­miðilafyrirtækisins TikTok stunduðu skipu­lagðar njósnir um Cristina Cridd­le, blaða­mann Financial Times í fyrra. Financial Times greinir frá þessu en fjöl­miðillinn fékk veður af njósnum fyrir­tækisins eftir dular­fullt sím­tal frá al­manna­tengsla­full­trúa TikTok sem var með slæma sam­visku yfir málinu.

Í kjöl­farið fékk FT af­hent gögn um innri rann­sókn fyrir­tækisins á málinu en þar kemur fram að tveir banda­rískir starfs­menn og tveir starfs­menn í Kína fóru í gegnum per­sónu­upp­lýsingar Cridd­le og fylgdust með ferðum hennar í von um að hafa uppi á heimildar­mönnum hennar, en hún hefur skrifað fjöl­margar fréttir um TikTok.

Hljóð og mynd fer ekki saman

TikTok hefur í­trekað neitað því að kín­verskir starfs­menn fyrir­tækisins hafi að­gang að upp­lýsingum um banda­ríska not­endur en nú er ljóst að hljóð og mynd fer ekki saman.

Á síðustu mánuðum hafa stofnanir og stjórn­völd í vest­rænum ríkjum verið að banna starfs­mönnum og stjórn­mála­mönnum að nota smá­forritið vegna öryggis- og per­sónu­verndar­sjónar­miða.

Þá óttast öryggis­stofnanir tengsl móður­fyrir­tækisins Byt­edance við kín­verska ríkið og skyldu þeirra til að deila upp­lýsingum með ríkinu sé þess óskað, sam­kvæmt kín­verskum lögum.

Óttaðist um heimildarmenn sína

Rétt er að taka fram að Financial Times gat ekki stað­fest hvort upp­lýsingum um Cridd­le hafi verið deilt með yfir­völdum í Kína en Cridd­le segir að njósnir þeirri veki upp óhug engu að síður.

„Ég var í miklu upp­námi og reyndi eftir bestu getu að rifja upp hvar og hve­nær ég hitti heimildar­menn mína,“ segir Cridd­le í sam­tali við vinnu­veitanda sinn.

Sam­kvæmt innan­húss rann­sókn TikToks komst fyrir­tækið ekki að því hverjir heimildar­menn hennar voru en Cridd­le segir hegðunina engu að síður var­huga­verða.

„Þeir fylgdust með ferðum mínum bæði í og utan vinnu þar sem þeir voru að fylgjast með per­sónu­lega far­símanum mínum,“ segir Cridd­le en hún hélt úti TikTok reikningi fyrir köttinn sinn.

Aðgengi starfsmanna vekur óhug

Criddle segir það ó­þægi­legt að vita að því að fjórir ein­staklingar, þar af tveir í Kína, hafi verið að fylgjast með ferðum sínum og skoða per­sónu­leg gögn í símanum sínum.

„Þetta er ná­kvæm­lega það sem TikTok hefur sagt að það myndi aldrei gera,“ segir Cridd­le og bætir við að þetta opni á spurningar um hversu mikið að­gengi venju­legir starfs­menn TikTok hafa að per­sónu­upp­lýsingum not­enda.

Yfir­völd í Peking hafa neitað því að vera nota smá­forritið til að njósna og hefur Shou Chew, fram­kvæmda­stjóri TikTok tekið í sama streng.

Shou Chew, fram­kvæmda­stjóri TikTok, mætti fyrir þingnefnd í Bandaríkjunum fyrr á árinu.
© epa (epa)

„Engu að síður voru tveir starfs­menn í Kína með að­gang að mínum gögnum. Maður veltir fyrir sér hvaða varnir eru til staðar,“ segir Cridd­le sem hefur ekki fengið svör frá fyrir­tækinu um hvernig og af hverju þeir gátu skoðað símann hennar.

Utan­ríkis­ráðu­neytið er eina ráðu­neytið á Ís­landi sem hefur bannað starfs­mönnum sínum að nota TikTok vegna ótta um að upp­lýsingum verði deilt með kín­verskum stjórn­völdum. Helga Þóris­dóttir, for­stjóri Per­sónu­verndar, hefur einnig sagt fulla ástæðu til að varast for­ritið.