Ákveðnar breytingar hafa orðið á verkefnum sveitarfélaganna undanfarin ár sem kalla á fleiri stöðugildi. Ein stærsta breytingin er sú að þjónusta við fatlað fólk fluttist frá ríkinu til sveitarfélaga í upphafi árs 2011. Reykjavíkurborg er meðal sveitarfélaga sem bent hafa á að málaflokkur fatlaðs fólks hafi verið vanfjármagnaður af ríkissjóði og nefnt það sem ástæðu neikvæðrar rekstrarniðurstöðu.
Vert er þó að taka fram að um er að ræða áskorun sem öll sveitarfélögin glíma við en í mörgum sveitarfélögum er rekstrarniðurstaða ekki jafn slæm og hjá borginni. Reykjavíkurborg er vissulega ekki eina sveitarfélagið sem sker sig úr en staðan er einnig umhugsunarverð í öðrum.
Á móti kemur að ákveðin sveitarfélög eru að standa sig betur, meðal annars í starfsmannamálum. Má þar nefna Kópavogsbæ þar sem stöðugildum hefur fækkað undanfarin ár og íbúafjölgun verið umfram fjölgun stöðugilda frá árinu 2010.
Önnur sveitarfélög ættu því að geta náð ákveðinni stærðarhagkvæmni, ekki síst Reykjavíkurborg og spyrja má hvers vegna stærsta sveitarfélagið virðist ná hvað minnstri stærðarhagkvæmni þegar litið er til fjölda stöðugilda á íbúa.
Aukinn fjöldi starfsmanna getur haft þær afleiðingar að þjónusta aukist en velta má fyrir sér hvort það sé raunin í umræddum sveitarfélögum og hvort þjónusta sé þar með lakari hjá þeim sem eru með fleiri íbúa á bak við hvert stöðugildi.
Nánar er fjallað um stöðu sveitarfélaganna í Viðskiptablaðinu sem kom út á föstudag. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.