Málmleitarfélagið Amaroq Minerals hefur birt niðurstöður rannsókna ársins 2024 í Nalunaq-námusvæðinu á Grænlandi.

Niðurstöðurnar staðfesta háan styrkleika gulls í svæðinu Mountain Block og gefa til kynna áframhaldandi möguleika á útvíkkun gullberandi æðanna í Target Block.

Rannsóknarboranirnar árið 2024 náðu til alls 2.985 metra í 11 borholum að yfirborði og 374,5 metra í neðanjarðarborunum í Mountain Block.

Auk þess voru tekin 203 sýni í vesturhluta námusvæðisins, þar sem bæði aðalæðin (Main Vein) og 75-æðin (75 Vein) koma upp á yfirborðið. Meðal merkustu niðurstaðna:

Neðanjarðarboranir sýndu háan styrkleika gulls, m.a. 47,6 g/t Au yfir 1,72 metra í Mountain Block, sem styrkir frekari rannsóknaráætlanir og eykur vissu um námuhagkvæmni svæðisins.

Yfirborðsrannsóknir staðfestu gullberandi æðar með þverskurði upp á 22,7 g/t Au yfir 0,5 metra í Target Block, sem gefur vísbendingar um útvíkkun svæðisins og mögulega aukningu auðlindarinnar.

Sýnataka á yfirborði leiddi í ljós 18,85 g/t Au í aðalæðinni og 6,63 g/t Au í 75-æðinni, sem bendir til frekari málmmyndunar til vesturs og gefur tilefni til frekari rannsókna á þessum hluta námusvæðisins.

Amaroq hyggst samþætta þessar niðurstöður í uppfærslu á auðlindamati Nalunaq (MRE4), sem áætlað er að birta í lok fyrsta ársfjórðungs 2025. Félagið undirbýr jafnframt frekari rannsóknir á yfirborði og neðanjarðar með það að markmiði að greina betur dreifingu gulls og styðja við þróun námuvinnslu á svæðinu.

James Gilbertson, yfirmaður rannsókna hjá Amaroq, segir niðurstöðurnar styðja við núverandi jarðfræðilíkan fyrirtækisins og gefa tilefni til bjartsýni:

Niðurstöður rannsókna frá 2024 halda áfram að staðfesta jarðfræðilíkan okkar af Nalunaq. Neðanjarðarboranir skila afar góðum niðurstöðum með háum styrkleika gulls, sem eykur enn frekar trú okkar á möguleikum Mountain Block-svæðisins. Þar að auki gefa niðurstöður okkar í auknum mæli til kynna að boranir af yfirborði gætu verið að vanmeta styrkleika gulls, en vísbendingar um það má bæði finna í gegnum niðurstöður neðanjarðarborana sem og breytanleikagreiningu. Byggt á þessum niðurstöðum hlökkum við til að uppfæra auðlindamat Nalunaq, sem við stefnum á í lok þessa ársfjórðungs. Frekari rannsóknarboranir eru áætlaðar á árinu 2025 og höfum við góða trú á getu okkar til að skilgreina fleiri svæði með háum styrkleika gulls ásamt því að gera námuvinnsluna eins skilvirka og kostur er á.”