Bandarísk fyrir­tæki glíma við sí­vaxandi pappírs­flóð og kostnaðar­samar út­tektir eftir að stjórn­völd undir for­ystu Donalds Trump auka eftir­lit með ráðningum er­lendra starfs­manna.

Fyrir­tæki eru beðin um að af­henda gögn innan þriggja daga eða sæta milljóna dóms­sektum, að því er fram kemur í frétt Financial Times.

Stjórn Trumps hefur á undan­förnum mánuðum stóraukið út­tektir á svo­kölluðum I-9 eyðu­blöðum, sem fyrir­tæki þurfa að fylla út til að sýna fram á að starfs­menn þeirra séu lög­lega starfandi í Bandaríkjunum.

Þessar út­tektir eru orðnar ein helsta leið Immigration and Cu­s­toms Enforcement (ICE) til að finna mögu­lega ólög­lega inn­flytj­endur, án þess að fara í sýni­legar vinnustaða­rannsóknir.

Smávægilegar villur í svokölluðum I-9 eyðu­blöðum, til dæmis að haka ekki við reit, geta kostað fyrir­tæki þúsundir dollara í sektum fyrir hvern starfs­mann.

Í apríl voru þrjú fyrir­tæki í Den­ver dæmd til að greiða sam­tals yfir 8 milljónir dollara í sektir fyrir að hafa ráðið ólög­lega inn­flytj­endur.

Fyrr í sumar var fram­kvæmda­stjóri fyrir­tækis í San Diego dæmdur til skil­orðs­bundinnar refsingar vegna brota af þessu tagi.

„Þetta er orðinn al­gjör víta­hringur,” segir John Mazzeo, lög­fræðingur hjá Verti­cal Screen, sem sér­hæfir sig í ráðningar­skimun. Hann segir eftir­spurn eftir þjónustu þeirra hafa náð sögu­legu há­marki.

Þó að fjölmiðlar ein­blíni á áberandi að­gerðir ICE með lög­regluáhrifum þá óttast stjórn­endur fyrir­tækja mest pappír­svinnuna og skyndi­út­tektirnar.

Út­tektir eru nú stundum fram­kvæmdar í eigin persónu með óvæntum heimsóknum ICE á veitingastaði og fyrir­tæki, í stað þess að sendar séu fyrir­vara­lausar til­kynningar í pósti.

Sér­fræðingar telja að stjórn­völd beiti þessari að­ferð í auknum mæli þar sem hún sé kostnaðar­minni leið til að rekja upp net ólög­legra starfa og fella af­leiðingar yfir at­vinnu­rek­endur í stað þess að ein­blína aðeins á út­lendingana sjálfa.

ICE birti ekki reglu­bundnar upp­lýsingar um fjölda út­tektar­mála og fyrir­tæki treysta því sí­fellt meira á óform­leg tengsla­net sín til að fá innsýn í um­fang að­gerðanna.

„I-9 helvíti“ og flókin skráning

Skjala­vinnsla vegna I-9 eyðu­blaða er orðin það flókin að bandarísk yfir­völd gefa út átta síðna leiðbeiningar til að út­skýra hvernig eigi að fylla út fjögurra síðna skjalið.

Sam­kvæmt greiningu American Immigration Lawyers Association eru yfir 50 mögu­legar sam­setningar skjala sem starfs­fólk getur lagt fram sem sönnun fyrir lög­mæti ráðningar.

Á sama tíma hefur stjórnin vakið reiði fyrir­tækja með því að aftur­kalla hluta af reglum frá stjórn Bidens, sem áður veittu vernd fyrir fólk frá óstöðugum ríkjum, eins og Haítí, sem nú gætu misst rétt sinn og þar með störf.

„Við komumst að því að tals­verður fjöldi starfs­manna hjá okkur var með útrunnin heimildar­skjöl og við neyddumst til að segja þeim upp,” segir fram­kvæmda­stjóri tækni­fyrir­tækis í At­lanta, sem vildi ekki láta nafns síns getið.