Fjallað er ítarlega um sprotafyrirtækið Standby Deposits, sem tveir Íslendingar stofnuðu og leiða, í Viðskiptablaði vikunnar. Fjártæknifyrirtækið sá tækifæri á bandaríska markaðnum með því að veita bankaábyrgð til leigjenda sem komast þá hjá því að leggja fram öryggistryggingu. Félagið hefur nú samið við 2 af 50 stærstu leigu­þjónustu­fyrir­tækjum Banda­ríkjanna.

Fjallað er ítarlega um sprotafyrirtækið Standby Deposits, sem tveir Íslendingar stofnuðu og leiða, í Viðskiptablaði vikunnar. Fjártæknifyrirtækið sá tækifæri á bandaríska markaðnum með því að veita bankaábyrgð til leigjenda sem komast þá hjá því að leggja fram öryggistryggingu. Félagið hefur nú samið við 2 af 50 stærstu leigu­þjónustu­fyrir­tækjum Banda­ríkjanna.

Standby sótti 5,25 milljónir dala, eða um 720 milljónir króna, í svokallaðri „seed“ fjármögnun sem lauk í byrjun síðasta árs. Brunnur vaxtarsjóður II og Stoðir leiddu fjármögnunina.

Egill Almar Ágústsson, framkvæmdastjóri og einn stofnenda Standby segir að þessi fjármögnun hafi gert félaginu kleift að klára að byggja upp vöruna sína, hefja samstarf við banka og sækja stóra viðskiptavini. Hann gerir ráð fyrir að félagið hefji bráðlega undirbúning að næstu fjármögnunarlotu, svokallaðri „Series-A“ fjármögnun.

Stærð bandaríska markaðarins geri það að verkum að fyrirtæki þurfa ekki mikla markaðshlutdeild til að verða mjög stór að sögn Egils.

„Þetta er markaður þar sem ef þú nærð 4-5% markaðshlutdeild, þá ertu líklega orðinn einhyrningur (metinn á einn milljarð dollara). Í Bandaríkjunum sækja öflug sprotafyrirtæki hratt og ákveðið fram á sínum mörkuðum. Við höfum metnað til að feta í þau fótspor, sem bandarískt fjártæknifyrirtæki með rætur á Íslandi.“

Fréttin er hluti af ítarlegri umfjöllun í Viðskiptablaði vikunnar þar sem Egill og Elvar rekja þriggja ára sögu Standby Deposits, háleit markamið og tækifæri á bandaríska markaðnum.