Fjöldi veitingahúsa- og veitingakeðja í Bandaríkjunum eiga í vök að verjast. Til marks um það stefnir í að yfirstandandi ár verði metár í fjölda greiðslustöðvana í geiranum, ef frá er talið heimsfaraldursárið 2020.

Þetta kemur fram í greiningu á vegum BankruptcyData.com sem Wall Street Journal segir frá. Gagnagrunnur félagsins heldur utan um umsóknir veitingafyrirtækja sem skráð eru á markað um greiðslustöðvanir, auk veitingafyrirtækja sem skulda meira en 10 milljónir dala.

Meðal bandarískra veitinghúsakeðja sem hafa lent í greiðslustöðvun á þessu ári eru Red Lobster, Hawkers Asian Street Food, Tijuana Flats, Roti og Rubio‘s Coastal Grill.

Heimsfaraldurinn hafði eins og gefur að skilja verulega neikvæð áhrif á rekstur veitingahúsa og hafa sum hver aldrei náð vopnum sínum á ný að faraldri loknum.

Að sama skapi juku bandarísk heimili aðhald í heimilisbókhaldinu á verðbólgutímum. Þar af leiðandi fækkaði veitingahúsagestum um leið og veitingastaðir börðust við miklar kostnaðarhækkanir.