Forstöðumaður fjárfestatengsla hjá olíurisanum Saudi Aramco, eyddi viku í fangelsi í Indlandi í sumar fyrir að hafa verið með gervinhattarsíma í fórum sínum í jógaferð rétt hjá landamærunum við Kína. Financial Times greinir frá.
Hinn 62 ára gamli Breti, Fergus MacLeod, segist hafa verið handtekinn þann 12. júlí síðastliðinn á hóteli í þjóðgarði í fylkinu Uttarakhand í norðurhluta Indlands en var sleppt úr haldi rúmri viku síðar. Notkun erlendra aðila á gervinhattarsímum er ólögleg í Indlandi nema með tilskyldu leyfi hjá stjórnvöldum. Bannið var lagt á eftir að stuðst var við gervinhattarsíma við hryðjuverkaárás í Mumbai árið 2008.
Hræðileg upplifun
Lögregluyfirvöld höfðu uppi á MacLeod eftir að hafa rakið hnit símans. MacLeod segist hafa kveikt og slökkt á símanum á hótelinu en að öðru leyti ekki notað símann á ferðalagi sínu með vinum, en meðal þeirra voru samstarfsmenn hans hjá Saudi Aramco, verðmætasta fyrirtæki heims.
„Þetta var mjög ógnvekjandi staður og skelfileg upplifun þar sem ég var í sameiginlegum fangaklefa með langtímaföngum sem höfðu framið mjög alvarlega glæpi,“ segir MacLeod við FT.
Hann sagði að komið hafi verið fram við hann tiltölulega vel í fangelsinu en bætti þó við að fangelsisyfirvöld hafi hunsað daglegar beiðnir hans um að fá samband við lögfræðing, breska sendiráðið eða fjölskylduna sína.
1.750 króna sekt
MacLoed var látinn laus gegn tryggingu sem vinir hans lögðu fram. Honum var ekki heimilt að yfirgefa Indland fyrr en eftir fyrirtöku í dómssal þar sem hann játaði sig sekan og greiddi 1.000 indverskar rúpíur í sekt sem nemur 1.750 íslenskum krónum.
Hann segist ekki hafa verið meðvitaður um að notkun gervihnattarsíma í Indlandi væri ólögleg og að hann hafi farið um tvo flugvelli í Indlandi með gervihnattarsímann á sér án þess að hafa verið stöðvaður af öryggisvörðum. MacLeod segist hafa keypt símann í Bretlandi árið 2017 til eigin nota og tók hann með sér við ferðalög í eyðimörkinni í Sádi-Arabíu vegna mögulegra neyðaraðstæðna á afskekktum svæðum með lélegt símasamband.
Í umfjöllun FT er bent á að hin 3.500 km. umdeildu landamæri á milli Indlands og Kína hafi lengi verið uppspretta spennu á milli ríkjanna tveggja. Stíft eftirlit er hjá indverskum öryggisyfirvöldum á svæðinu, ekki síst eftir að tuttugu indverskir hermenn létu lífið við landamærin í átökum árið 2020.
MacLoed er einn af fáum útlendingum sem hefur gegnt einni af æðstu stöðum hjá Saudi Aramco, stærsta olíufyrirtæki heims. Hann hefur gegnt stöðu forstöðumanns fjárfestatengsla hjá olíurisanum frá árinu 2017 en hann var ráðinn til að bæta stjórnunarskipulag félagsins fyrir frumútboð þess árið 2019. Þar áður gegndi hann sömu stöðu hjá breska olíufyrirtækinu BP og þar áður starfaði hann við greiningu á olíumarkaðnum hjá Deutsche Bank.