Stjórnendur Arion banka nýttu sér kauprétt á hlutabréfum í bankanum í vikunni. Samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar keyptu átta stjórnendur bréf á tveimur mismunandi verðum, 95,5 krónur á hlut og 153,75 krónur á hlut dagana 17. og 18. febrúar.

Til samanburðar var dagslokagengi bréfa Arion banka í gær 173 krónur.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, keypti samtals 12.136 hluti í bankanum fyrir tæplega 1,5 milljónir króna. Markaðsvirði hlutanna miðað við dagslokagengið í gær nemur tæplega 2,1 milljón króna.

Iða Brá Benediktsdóttir aðstoðarbankastjóri, Andrés Fjeldsted, regluvörður bankans, Úlfar Úlfar Freyr Stefánsson, framkvæmdastjóri áhættustýringar, Hákon Hrafn Gröndal, framkvæmdastjóri fyrirtækja- og fjárfestingabankasviðs, og Ólafur Hrafn Höskuldsson fjármálastjóri innleystu einnig kauprétti og keyptu hlutabréf fyrir tæplega 1,5 milljónir króna hver.

Jóhann Georg Möller, framkvæmdastjóri markaða, og Björn Björnsson, framkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs, keyptu bréf í bankanum fyrir 1,5 milljónir króna hvor.