Sex stjórn­endur Festi hf. nýttu nýverið kauprétt sinn að hluta­bréfum í félaginu.

Kaupin fóru fram í utan­þings­við­skiptum en sam­kvæmt kaup­hallar­til­kynningum voru keyptir 2.673 hlutir af hverjum viðkomandi stjórnanda á genginu 187 krónur á hlut.

Dagsloka­gengi Festi í Kaup­höll Ís­lands í gær var 296 krónur, sem þýðir að hver hlutur var keyptur með 109 króna af­slætti miðað við markaðs­gengi.

Þetta þýðir að hver stjórnandi keypti hluti fyrir sam­tals 499.751 krónu en markaðsverðmæti þeirra sama dag nam 791.108 krónum.

Mis­munurinn, sem endur­speglar ávinning viðkomandi stjórn­enda á markaðsverði, nemur 291.357 krónum á hvern ein­stak­ling.

Þeir sem nýttu kaupréttinn eru Ásta Sigríður Fjeld­sted, for­stjóri Festi, Guðrún Aðal­steins­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Krónunnar, Eva Guðrún Torfa­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Bakkans vöru­hótels, Magnús Kristinn Inga­son, fjár­mála- og rekstrar­sviðs­stjóri, Óðinn Árna­son, fram­kvæmda­stjóri Yrkis eigna ehf., og Óttar Örn Sigur­bergs­son, fram­kvæmda­stjóri Elko.

Saman­lagt voru keyptir 16.038 hlutir á genginu 187 krónur. Heildar­kaup­verðið nam tæp­lega þremur milljónum króna en markaðsverðmæti hlutanna á kaup­degi nam tæp­lega 4,75 milljónum. Þannig var saman­lagður mis­munur allra við­skiptanna um 1,75 milljónir króna.

Við­skiptin voru liður í kaupréttaráætlun sem samþykkt var á aðal­fundi Festi í mars 2024 og gildir til ársins 2027.

Áætlunin er í samræmi við ákvæði 10. gr. laga um tekju­skatt og heimilar starfsmönnum að kaupa hluti í félaginu fyrir allt að 750 þúsund krónur ár­lega, í þrjú ár.

Mark­mið hennar er að auka tengingu starfs­manna við langtíma­af­komu félagsins og hags­muni hlut­hafa.

Líkt og Við­skipta­blaðið greindi frá í gær nýttu starfs­menn Festi og dóttur­félaga kauprétt að sam­tals 1.048.552 hlutum í félaginu í gær.

Starfsmönnum bauðst að kaupa á sama gengi og stjórn­endur.

Heildar­and­virði kaupa starfs­fólksins nam 196,1 milljón króna, sam­kvæmt kaup­hallar­til­kynningu félagsins. Hluta­fé hækkar um eina milljón hluta.

Hluta­fé félagsins hækkaði því um 1.048.552 hluti og varð 312.548.552 krónur að nafn­virði. Hver hlutur er að nafn­virði ein króna og veitir eitt at­kvæði á aðal­fundi.