Sex stjórnendur Festi hf. nýttu nýverið kauprétt sinn að hlutabréfum í félaginu.
Kaupin fóru fram í utanþingsviðskiptum en samkvæmt kauphallartilkynningum voru keyptir 2.673 hlutir af hverjum viðkomandi stjórnanda á genginu 187 krónur á hlut.
Dagslokagengi Festi í Kauphöll Íslands í gær var 296 krónur, sem þýðir að hver hlutur var keyptur með 109 króna afslætti miðað við markaðsgengi.
Þetta þýðir að hver stjórnandi keypti hluti fyrir samtals 499.751 krónu en markaðsverðmæti þeirra sama dag nam 791.108 krónum.
Mismunurinn, sem endurspeglar ávinning viðkomandi stjórnenda á markaðsverði, nemur 291.357 krónum á hvern einstakling.
Þeir sem nýttu kaupréttinn eru Ásta Sigríður Fjeldsted, forstjóri Festi, Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, Eva Guðrún Torfadóttir, framkvæmdastjóri Bakkans vöruhótels, Magnús Kristinn Ingason, fjármála- og rekstrarsviðsstjóri, Óðinn Árnason, framkvæmdastjóri Yrkis eigna ehf., og Óttar Örn Sigurbergsson, framkvæmdastjóri Elko.
Samanlagt voru keyptir 16.038 hlutir á genginu 187 krónur. Heildarkaupverðið nam tæplega þremur milljónum króna en markaðsverðmæti hlutanna á kaupdegi nam tæplega 4,75 milljónum. Þannig var samanlagður mismunur allra viðskiptanna um 1,75 milljónir króna.
Viðskiptin voru liður í kaupréttaráætlun sem samþykkt var á aðalfundi Festi í mars 2024 og gildir til ársins 2027.
Áætlunin er í samræmi við ákvæði 10. gr. laga um tekjuskatt og heimilar starfsmönnum að kaupa hluti í félaginu fyrir allt að 750 þúsund krónur árlega, í þrjú ár.
Markmið hennar er að auka tengingu starfsmanna við langtímaafkomu félagsins og hagsmuni hluthafa.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gær nýttu starfsmenn Festi og dótturfélaga kauprétt að samtals 1.048.552 hlutum í félaginu í gær.
Starfsmönnum bauðst að kaupa á sama gengi og stjórnendur.
Heildarandvirði kaupa starfsfólksins nam 196,1 milljón króna, samkvæmt kauphallartilkynningu félagsins. Hlutafé hækkar um eina milljón hluta.
Hlutafé félagsins hækkaði því um 1.048.552 hluti og varð 312.548.552 krónur að nafnvirði. Hver hlutur er að nafnvirði ein króna og veitir eitt atkvæði á aðalfundi.