Ástralska flugfélagið Qantas hefur farið þess á leit við æðstu stjórnendur fyrirtækisins að bregða sér í hlutverk hlaðmanna um þriggja mánaða skeið. Félagið hefur, eins og fjöldi annarra flugfélaga, átt í vandræðum með að manna lausar stöður eftir að hafa neyðst til að segja upp starfsfólki í Covid faraldrinum. BBC greinir frá.
Yfirmaður rekstrarsviðs Qantas, Colin Hughes, gerir sér vonir um að minnsta kosti hundrað manns bjóðist til að ganga í störf hlaðmanna á alþjóðaflugvöllum í Sydney og Melbourne.
Í bréfi til starfsmanna segir Hughes að útbreiðsla flensu og Covid-19 í átrölsku samfélagi, auk skorts á vinnuafli, hafi bitnað á starfsemi og þjónustustigi flugfélagsins. Við því þurfi að bregðast.
Yfirmenn sem til eru í að leggja hönd á plóg stendur til boða þrjár til fimm hlaðmannsvaktir í viku, í fjórar eða sex klukkustundir á dag. Meðal hæfnisskilyrða er að viðkomandi þarf að geta borið ferðatösku sem vegur allt að 32 kíló.