Skagi hf. hefur veitt stjórnendum og lykilstarfsmönnum fyrirtækisins kauprétt og hlutabréf sem hluta af kaupaukagreiðslum vegna árangurs ársins 2024.
Samkvæmt tilkynningum til Kauphallarinnar er um að ræða annars vegar samning um afhendingu hlutabréfa í Skaga að þremur árum liðnum, þar sem frestuðum hluta kaupauka var ráðstafað til kaupa á hlutabréfum, og hins vegar afhendingu hlutabréfa án frestunar sem nemur 10% af heildarkaupauka hvers stjórnanda.
Með frestun er átt við að afhending hlutabréfa eða nýting kaupréttar verður ekki möguleg fyrr en eftir þrjú ár.
Kaupréttarsamningurinn veitir stjórnendum rétt til að kaupa hlutabréf á tilteknu verði eftir þrjú ár, sem tryggir þeim möguleikann á að njóta framtíðargengisaukningar fyrirtækisins.
Markmið slíks fyrirkomulags er að tengja umbun stjórnenda betur við langtímaárangur félagsins.
Grunngengi í kaupréttarsamningunum og samningum um afhendingu hlutabréfa var 20,84 krónur á hlut, sem jafngildir vegnu meðalgengi í viðskiptum með hluti í félaginu á Nasdaq Iceland síðustu tíu viðskiptadaga fyrir undirritun samninganna.
Haraldur Þórðarson forstjóri Skaga hf., fékk úthlutað samtals 168.078 hlutum, þar af 148.181 með frestun til þriggja ára og 19.897 hlutum án frestunar.
Guðný Helga Herbertsdóttir forstjóri VÍS trygginga hf.,fékk samtals 1.663.188 hluti, þar af 1.628.869 með frestun og 34.319 án frestunar.
Brynjar Þór Hreinsson fjármálastjóri Skaga fékk úthlutað 130.123 hlutum, þar af 114.719 með frestun og 15.404 án frestunar.
Sigrún Helga Jóhannsdóttir yfirlögfræðingur Skaga, fékk 104.789 hluti, þar af 92.384 með frestun og 12.405 án frestunar.
Anna Rós Ívarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs hjá Skaga, fékk samtals 183.770 hluti, þar af 162.015 með frestun og 21.755 án frestunar.
Ingibjörg Ásdís Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu hjá VÍS, fékk úthlutað samtals 1.054.293 hlutum, þar af 1.032.538 með frestun og 21.755 án frestunar.
Ingólfur Þorsteinsson, framkvæmdastjóri hjá VÍS tryggingum, fékk samtals 1.047.435 hluti, þar af 1.025.822 með frestun og 21.613 án frestunar.
Jón Árni Traustason, framkvæmdastjóri fjármála og greininga hjá VÍS tryggingum, fékk samtals 176.443 hluti, þar af 155.556 með frestun og 20.887 án frestunar.
Reynir Bjarni Egilsson, framkvæmdastjóri trygginga og tjóna hjá VÍS tryggingum, fékk úthlutað samtals 37.329 hlutum, þar af 32.910 með frestun og 4.419 án frestunar.
Öll viðskiptin fóru fram utan viðskiptaþings í gær.