„Þjóðin varð fyrir miklu áfalli, þegar bankarnir hrundu allir í október 2008. En fráleitt var að draga Geir H. Haarde forsætisráðherra einan til ábyrgðar á bankahruninu, eins og naumur meirihluti Alþingis gerði með því að leiða hann fyrir landsdóm. Málshöfðunin var niðurstaða stjórnmálarefja. Þótt landsdómur sýknaði Geir í öllum aðalatriðum, var einnig langsótt að halda því fram, að hann hefði brotið stjórnarskrána með því að setja hættu á bankahruni ekki á dagskrá ráðherrafunda. Til þess var beitt lagaklækjum, ekki lögum. Í ljós kom að þrír dómendur í landsdómi voru vanhæfir sökum fjármálavafsturs og annarra hagsmunaárekstra, auk þess sem málsmeðferð var á öllum stigum meingölluð. Neyðarlögin, sem Geir beitti sér fyrir, reyndust hins vegar gæfuspor. Margt óvænt kemur hér fram,“ segir á kápu bókarinnar „Landsdómsmálið – stjórnmálarefjar og lagaklækir“ eftir Hannes Hólmstein Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
Í eftirfarandi bókarkafla fer höfundur yfir það sem hann telur ástæður bankahrunsins, hvað hefði þurft að ganga upp til að bankakreppa breyttist ekki í bankahrun og þá þætti sem fóru fram hjá rannsóknarnefnd Alþingis tengda beitingu Breta á hryðjuverkalögum gegn Íslandi. Millifyrirsagnir eru blaðsins.
Hrunið svartur svanur
Þótt rannsóknarnefnd Alþingis væri falið það meginverkefni að finna orsakir bankahrunsins, reyndi hún ekki að skýra áhugaleysi Bandaríkjastjórnar og óbilgirni Bretastjórnar, sem hvort tveggja átti tvímælalaust mikinn þátt í því, að bankarnir hrundu. Tvö mikilvæg atriði fóru líka fram hjá nefndinni.
Beiting hryðjuverkalaganna gegn Íslendingum var ekki aðeins ruddaleg, heldur líka óþörf, ef miðað var við yfirlýstan tilgang þeirra, sem var að hindra ólöglega fjármagnsflutninga til Íslands. Hinn 3. október hafði breska fjármálaeftirlitið gefið út tilskipun til útbús Landsbankans í Lundúnum, þar sem því var bannað að flytja fé til útlanda án skriflegs leyfis fjármálaeftirlitsins og með þriggja daga fyrirvara. Jafnframt var Barclays banka, sem annaðist millifærslur fyrir útbúið, gert viðvart um tilskipunina, þótt hún væri þá ekki birt opinberlega. Það hefði því verið ógerlegt fyrir Landsbankann, jafnvel þótt hann hefði viljað, að færa fjármagn í laumi frá Bretlandi til Íslands. Í mesta lagi hefði þurft að herða eitthvað á tilskipuninni til að koma í veg fyrir það.
Hitt atriðið, sem fór fram hjá rannsóknarnefndinni, var, að Bretastjórn gerði sig líklega seka um óleyfilega mismunun eftir þjóðerni, þegar hún bauð öllum breskum bönkum lausafjárfyrirgreiðslu nema þeim tveimur, sem voru í eigu Íslendinga, KSF og Heritable Bank. Bretar voru eins og Íslendingar aðilar að innri markaði Evrópu, og þess vegna máttu þeir ekki mismuna eftir þjóðerni. Það var hlutverk framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að hafa eftirlit með því, að stjórnir aðildarríkjanna mismunuðu ekki fyrirtækjum. Vakti hún yfir því í lánsfjárkreppunni 2007-2009, að öllum fjármálafyrirtækjum einstakra ríkja stæðu sambærileg kjör til boða. Furðu sætir, að hún skyldi ekki taka þetta mál upp af sjálfsdáðum. En Bretar voru voldugir og Íslendingar sigruð þjóð.
Ekki er fráleitt að skýra íslenska bankahrunið sem „svartan svan“, en það hugtak er notað um óvæntan atburð, sem hefur víðtækar afleiðingar, en menn hefðu getað séð fyrir, hefðu þeir haft þá vitneskju, sem fékkst þó aðeins við sjálfan atburðinn. Nafnið er auðvitað dregið af því, að menn héldu, að allir svanir væru hvítir, uns vestrænir landkönnuðir rákust sér til undrunar á svarta svani í Ástralíu í lok sautjándu aldar. Í aðdraganda bankahrunsins gerðist margt óvænt á sama tíma:
- Þar eð margir eigendur bankanna höfðu fjármagnað kaup sín í þeim með lánsfé, lentu þeir skyndilega í erfiðleikum, þegar eignaverð lækkaði í heimskreppunni.
- Íslensk fyrirtæki höfðu komið sér út úr húsi í Danmörku, og Danske Bank var þeim andsnúinn.
- Sumir eigendur bankanna þóttu fara of geyst og nutu þess vegna ekki trausts erlendis.
- Vogunarsjóðir höfðu komið auga á, að íslenska bankakerfið væri í fallhættu, og voru teknir að veðja gegn því.
- Seðlabankar G-10 ríkjanna sammæltust um það í maíbyrjun 2008, að Íslandi skyldi ekki rétt hjálparhönd með gjaldeyrisskiptasamningum.
- Innlánasöfnun íslensku bankanna erlendis hafði mælst illa fyrir. Stjórnvöld í Evrópu vildu stöðva hana.
- Seðlabanki Evrópu tók því illa, að íslensku bankarnir höfðu útvegað sér veðlán út á ástarbréf, og heimtuðu, að þeir minnkuðu stórlega slíkar lántökur.
- Ísland hafði ekki lengur sama hernaðargildi og í kalda stríðinu, svo að Bandaríkjastjórn hafði lítinn áhuga á landinu.
- Forsætisráðherra og fjármálaráðherra Breta voru báðir Skotar, og þeir vildu sýna kjósendum sínum, að sjálfstæði gæti verið varhugavert. Þess vegna lokuðu þeir KSF og Heritable Bank einum breskra banka og settu hryðjuverkalög á Ísland.
- Skömmu áður en stór lán hjá Glitni voru á gjalddaga, varð Lehman Brothers gjaldþrota. Lánalínur lokuðust, lausafjárkreppan harðnaði, fjármálamarkaðir urðu óvirkir.
- Kaup ríkisins á Glitni áttu að auka traust á bankakerfinu, en þess í stað minnkaði það, meðal annars vegna þess að aðaleigendur bankans fóru í fjölmiðlaherferð gegn kaupunum, en aðallega vegna þess, að hjálparlaust gátu Seðlabankinn og fjármálaráðuneytið bersýnilega ekki bjargað bönkunum, og hvergi var hjálp að fá.
- Á sama tíma og Glitniskaupin voru ákveðin, lá leiðtogi annars stjórnarflokksins alvarlega veik á sjúkrahúsi erlendis. Því var sá flokkur höfuðlaus her.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.