Nú þegar íslenska ríkið er komið úr eigendahóp Íslandsbanka og umsvif þess á bankamarkaði eru minni en þau hafa verið um áratugaskeið er rétt að staldra við og velta fyrir sér hver framtíðarsýn stjórnvalda fyrir fjármálakerfið er. Pólitískur vilji fyrir frekari einkavæðingu og þar með sölu á hluta Landsbankans virðist ekki vera til staðar en á sama tíma virðist stefna stjórnvalda vera bæði óskýr og mótsagnarkennd.

Snorri Jakobsson, hagfræðingur og eigandi Jakobsson Capital, kom inn á þessar þverstæður í pallborðsumræðum á SFF deginum, ársfundi Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu, sem fór fram fyrr í apríl undir yfirskriftinni Breyttur heimur. Hann benti þar á að umgjörðin í kringum rekstur banka hér á landi væri full af mótsögnum og að margt stangist þar á. „Samkvæmt eftirlitsaðilanum áttu að hámarka eiginfjárhlutfall, samkvæmt löggjafanum áttu að lágmarka vaxtamun og samkvæmt framkvæmdarvaldinu áttu að hámarka arðsemi. Þetta er náttúrulega stærðfræðijafna sem gengur ekki upp,“ sagði Snorri. „Svo er jafnan með þeim hliðarskilyrðum að það megi ekki vera stærri samrunar,” sagði hann enn fremur.

Þversagnir og arðsemi

Það eina af þessum þversagnakenndu markmiðum sem næst er þetta með eiginfjárhlutfallið. Eins og SFF hefur bent á hefur arðsemi íslenskra banka verið verri en gengur og gerist meðal evrópskra banka á undanförnum árum enda er hin sértæka skattlagning fjármálaþjónustu mikil hér á landi og vogunarhlutfallið hærra en þekkist annars staðar.

Þetta grefur undan samkeppnisfærni bankanna gagnvart öðrum lánveitendum. Það er algengur misskilningur að bankarnir starfi á fákeppnismarkaði. Þannig eru tuttugu lánveitendur starfandi hér á landi sem veita veðlán til heimila og bankarnir eru í samkeppni við erlenda banka, sem búa við hagstæðari rekstrarskilyrði, þegar kemur að lánveitingum til stærri fyrirtækja, svo einhver dæmi séu nefnd.

Á fundi SFF benti Snorri á að svokallað vogunarhlutfall, sem sé raunverulegt eiginfjárhlutfall banka, sé mun hærra en viðgangist í löndunum í kringum okkur, allt að tvö til þrefalt hærra, sem stuðli svo að því að vaxtamunur sé allt að 50% hærri. Við endurreisn bankanna hafi verið innleiddar reglur með mun hærra eiginfjárhlutfalli en áður þekktist. Á honum mátti skilja að mikið vatn hafi runnið til sjávar síðan þá. „Það þarf kannski að endurskoða hlutina þegar tímarnir breytast,“ sagði Snorri.

Dýrkeypt Íslandsálag

í Hvítbókinni um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið árið 2018 var meðal annars fjallað um Íslandsálagið sem samanstandi af háum eiginfjárkröfum, háum sértækum sköttum og smæðarálagi og væri hluti af ytra umhverfi í rekstri banka hér á landi sem stuðli að hærri vaxtamun en í nágrannaríkjunum.

Í skýrslu sem ráðgjafafyrirtækið Intellecon vann fyrir SFF á síðasta ári var áætlað að Íslandsálagið á vexti vegna hærri eiginfjárkrafna, sértækra skatta og bindiskyldu kynni að vera allt að 1% eða sem samsvarar um 500 þúsund krónum á ári fyrir 50 milljóna króna lán, en þar vógu hærri eiginfjárkröfur þyngst. Þó var tekið fram að ákvörðun um vexti væri í höndum hvers lánveitenda fyrir sig og kynni að vera breytileg milli fyrirtækja, tegunda lána og yfir tíma.

Eiginfjárkröfur hækka raunvexti

Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, gerir sér grein fyrir þessum kostnaði. Á ráðstefnu Seðlabankans og Northwestern háskólans í Hörpu á föstudaginn 9. maí sagði hann að líklega leiddu kröfur á fjármálageirann hér á landi af sér að vextir á útlánum væru hærri en ella væri.

Ásgeir var þar að svara spurningu Gauta B. Eggertssonar, hagfræðiprófessors við Brown-háskóla, sem spurði Ásgeir hvort gengið hefði verið of langt í aðgerðum til að reyna að tryggja öryggi fjármálakerfisins hér á landi þannig að það að það leiddi af sér hærri vexti hér á landi en ella, enda væru raunvextir nokkuð hærri en í samanburðarlöndum.

„Það eru margir hér á landi, sérstaklega ef þú ræðir við stjórnendur eða eigendur bankanna, sem myndu halda því fram að við höfum gengið of langt,“ sagði
Ásgeir.

Þá ítrekaði Gauti spurninguna og spurði hvort kröfurnar leiddu af sér hærri vaxtakjör á bankalánum hér á landi.

„Það er klárt að það er kostnaður af þessari stefnu, sem er líklega í formi hærri raunvaxta að einhverju leyti,“ sagði Ásgeir en ítrekaði engu síður þörf fyrir sterkt fjármálaeftirlit og þjóðhagsvarúð hér á landi.

Í erindi sínu fór Ásgeir yfir breytingar sem gerðar hafi verið á umgjörð Seðlabankans á síðustu árum með það að markmiði að efla bankann á sviði peningamála, fjármálastöðugleika og fjármálaeftirlits, sér í lagi eftir sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins árið 2020.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út 21. maí 2025. Áskrifendur geti lesið umfjöllunina í heild hér.