Fjárfestingafélagið Stoðir tók þátt í tæplega tveggja milljarða króna fjármögnunarlotu Landeldis ehf. og á í dag 32,9% hlut í fyrirtækinu. „Verkefnið mun kosta rúma 15 milljarða króna og þarfnast því frekari fjármagns á komandi árum. Á næsta ári stefnir félagið á að sækja nýtt hlutafé fyrir aðra 2 milljarða króna,“ er haft eftir Halldóri Ólafi Halldórssyni, stjórnarformanni Landeldis, í frétt Fiskifrétta .
Hann bætir við að stofnendur og starfsmenn Landeldis hafi einnig lagt félaginu til mikið fjármagn og eiga þeir um 52% hlut í félaginu í dag.
Landeldi stefnir á um 32.500 tonna ársframleiðslu í nýrri landeldisstöð sem er að rísa í Þorlákshöfn. Félagið horfir til þess að verða með þeim fyrstu til að framleiða lax á landi í stórum stíl í heiminum.
Núverandi umhverfismat leyfir Landeldi að ala á bilinu 5-6 þúsund tonn á ári en leyfisferli er hafið til að stækka eldið enn frekar upp í 20.000 tonna framleiðslu á ári. Félagið stefnir á nokkurra þúsund tonna framleiðslu undir vörumerkinu Deep Atlantic Salmon árið 2023. Þá er Landeldi komið vel á veg með seiðaeldi en félagið keypti seiðastöð við Hveragerði fyrir haustið 2020.
„Við eigum nóg af seiðum til að flytja í áframeldið í Þorlákshöfn á komandi ári. Öll hrognin eru keypt af Stofnfiski í Vogum og höfum við átt farsælt samstarf í um eitt ár,” segir Halldór Ólafur.