Kvika banki mun ekki framkvæma frekari endurkaup á eigin bréfum samkvæmt gildandi endurkaupaáætlun á meðan samrunaviðræðum á milli bankans og Arion banka stendur. Þetta kemur fram í tilkynningu bankans til Kauphallarinnar.

Í lok febrúar tilkynnti Kvika um allt að fimm milljarða króna endurkaupaáætlun en hluthafar bankans samþykktu á aðalfundi í mars 2024 að heimila stjórn að kaupa allt að 10% af útgefnum hlutum í félaginu, m.a. í þeim tilgangi að stjórn gæti komið á formlegri endurkaupaáætlun.

Samkvæmt nýjustu endurkaupatilkynningu Kviku er bankinn búinn að kaupa eigin bréf fyrir 1,25 milljarða króna af 2,5 milljarða króna fyrri hluta endurkaupaáætlunarinnar.