Auglýsingastofan Hér&Nú hefur stofnað nýtt framleiðslufyrirtæki sem ber heitið Silfra. Fyrirtækið mun sérhæfa sig í kvikmynduðu efni, ljósmyndun og framleiðslu fyrir samfélagsmiðla.

Í tilkynningu segir að með stofnun Silfru sé verið að fylla gat í markaðinn þar sem lítil og meðalstór fyrirtæki geti fengið tækifæri til að framleiða efni á viðráðanlegu verði.

„Við erum ekki að fara í beina samkeppni við stóru framleiðslufyrirtækin heldur langar okkur að nálgast hugmyndavinnu, framleiðslu og fólk á setti í takt við umfang og stærð framleiðslufyrirtækisins,“ segir Högni Valur Högnason, framkvæmdastjóri Hér&Nú.

Silfra hefur þá fengið til liðs við sig Guðmund Þór Kárason, Sigrúnu Maríu Jörundsdóttur og Einar Eyjólfsson. Öll búa þau yfir mikilli reynslu í framleiðslu myndefnis og auglýsingagerð á ólíkum vettvangi.

Guðmundur Þór hefur starfað sem leikstjóri og tökumaður um áratugaskeið og komið að fjölmörgum þáttaseríum og auglýsingaherferðum.

Sigrún María starfaði sem framleiðandi hjá framleiðslufyrirtækinu Skot áður en hún kom til liðs við Silfru. Hún hefur framleitt bæði auglýsingar og sjónvarpsþætti fyrir íslenskan markað.

Einar hefur umsjón með efnissköpun á TikTok og hefur komið að stórum auglýsingaherferðum, þar á meðal kosningaherferð Miðflokksins í alþingiskosningunum.