Zhang Yiming, meðstofnandi ByteDance, er nú orðinn ríkasti maður Kína en auður hans er metinn á 49,3 milljarða dala, eða um 43% meira en fyrir ári síðan. Zhang, sem er 41 árs, lét af störfum árið 2021 en talið er að hann eigi um 20% í fyrirtækinu.
ByteDance er móðurfyrirtæki TikTok en smáforritið er einn vinsælasti samfélagsmiðill heims. Miðillinn hefur þó verið mikið til umfjöllunar sökum mögulegra tengsla þess við kínversk yfirvöld.
Bæði fyrirtækin ítreka þó að TikTok hafi engin tengsl við kínversku ríkisstjórnina en bandarísk yfirvöld áætla engu að síður að banna forritið í janúar 2025 nema ByteDance selji starfsemi þess í Bandaríkjunum.
Í skýrslu rannsóknarstofunnar Hurun segir að Zhang sé átjándi einstaklingur í Kína sem ber þennan titil á síðustu 26 árum. Til samanburðar hafa aðeins fjórir, Bill Gates, Warren Buffet, Jeff Bezos og Elon Musk, setið á toppnum í Bandaríkjunum allan þann tíma.