„Með nýjum og endurbættum búnaði erum við ekki bara að viðhalda sömu framleiðslu, heldur erum við að auka framleiðslu orkuversins um liðlega 20 MW, án þess að bora nýjar vinnsluholur,“ segir Sunna Björg Helgadóttir, framkvæmdastjóri tæknisviðs HS Orku, þegar hún er spurð út í uppbyggingu sjöunda áfanga orkuversins í Svartsengi.

Framkvæmdir hófust um mitt ár 2023 en undirbúningur hafði þá staðið yfir um langt skeið. Í verkefninu felst að eldri framleiðslueiningar í orkuverum 3 og 4 verða aflagðar en þær framleiða samanlagt um 14 MW. Í þeirra stað verður sett upp ný framleiðslueining í stækkuðu stöðvarhúsi orkuvers 6. „Vélarnar í orkuverum 3 og 4 hafa sungið sitt síðasta og eru alveg á lokametrum líftíma síns enda hafa þessar vélar verið í rekstri í Svartsengi frá árinu 1980,“ segir Sunna.

Tækifæri til áframhaldandi uppbyggingar

Með tilkomu áfanga sjö í Svartsengi opnast einnig sá möguleiki að bæta heitavatnsframleiðslu fyrirtækisins sem er mikilvægt í ljósi aukinnar eftirspurnar eftir heitu vatni á Reykjanesi.

„Jarðhræringarnar á Reykjanesi sýna að mikill hiti og virkni er til staðar í kerfinu, sem getur skapað tækifæri til áframhaldandi uppbyggingar í Svartsengi. Uppsett heildarafl er nú þegar umfram nýtingarleyfi, sem kallar á frekari rannsóknir og mögulega áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu sem er þó háð frekari nýtingarleyfum,“ segir Sunna og bætir við:

„Fyrst og fremst snýst þetta verkefni um að nýta gufuna betur í Svartsengi og má segja að verkefnið sé í anda HS Orku, þar sem alltaf er verið að leita leiða að betri nýtingu.“

Stefnt að gangsetningu í nóvember

Fyrsta skóflustunga verkefnisins var tekin um miðjan desember 2022 og jarðvinna hófst í kjölfarið. Um mitt ár 2023 var samið við Ístak, byggingaverktaka verkefnisins, sem hóf framkvæmdir á svæðinu. Jarðhræringarnar sem hófust fyrir alvöru 10. nóvember sama ár leiddu til rýmingar á svæðinu, sem tilgreint var sem hættusvæði. Eldgosahrinan hófst síðan í desember sama ár, með gosum á nærri mánaða fresti á tímabili.

„Verkefnið lá niðri í um fjóra mánuði og verktakar sinntu HS Orka nær með nýjum og endurbættum búnaði að auka framleiðslu orkuvers síns um liðlega 20 MW, án þess að bora nýjar vinnsluholur. Framkvæmdastjóri tæknisviðs fyrirtækisins segir jarðhræringar á Reykjanesi sýna að mikill hiti og virkni sé til staðar í kerfinu, sem geti skapað tækifæri til áframhaldandi uppbyggingar í Svartsengi. Stórauka framleiðsluna án þess að bora öðrum verkefnum á meðan. Frá því í mars 2024 hafa þeir unnið nánast óslitið, að frátöldum 15 dögum, þrátt fyrir eldgos í maí, ágúst, nóvember 2024 og nú síðast í apríl 2025,“ segir Sunna, en eftir gosið í mars var ákveðið í samráði við viðbragðsaðila að heimila áframhaldandi vinnu með breyttu verklagi og auknum öryggisráðstöfunum.

„Þrátt fyrir að hafa misst út fjóra mánuði í verkinu er stefnt að gangsetningu í byrjun nóvember á þessu ári,“ bætir Sunna við, en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir gangsetningu á þriðja ársfjórðungi 2025.

Að hennar sögn er orkuverið nú þegar farið að taka á sig mynd. Allur helsti búnaður hefur verið settur upp og unnið er að áframhaldandi uppsetningu og lagnavinnu. Gangsetning hefjist formlega með prófunum síðsumars. „Því er helst að þakka samvinnu stækkunarteymis HS Orku, viðbragðsaðila og lykilverktaka. Það hefur verið magnað að fylgjast með útsjónarsemi og vilja allra til að leysa þær áskoranir sem hafa komið upp.“

Sunna segir hönnun stækkunarinnar í Svartsengi ekki hafa breyst þrátt fyrir jarðhræringarnar og áskoranirnar sem þeim hafa fylgt. „Vísindamenn hafa kortlagt sprungur á svæðinu og rannsóknir hafa ekki gefið ástæðu til að breyta áformum okkar og við sjáum jafnvel tækifæri til að nýta þessa virkni enn frekar í kringum Svartsengi. Um páskana byrjuðum við síðan að bora rannsóknarborholu í Krýsuvík og þar munum við einnig hafa vísindaþekkinguna til hliðsjónar ef og þegar uppbygging fer af stað á því svæði. Öll okkar vinna hefur verið unnin í nánu samstarfi við vísindasamfélagið og mun það góða samstarf að sjálfsögðu halda áfram.“

Ferlið gekk vel

Vinnu við skipulagsog leyfismál er varðar uppbyggingu sjöunda áfanga orkuversins í Svartsengi lauk árið 2022 með útgáfu nýs nýtingar- og virkjunarleyfis sem heimilar framleiðslu á 85 MW rafafli. Sunna segir leyfisferlið hafa gengið vel. „Sérstaklega í ljósi þess að umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið breytti lögunum, rétt áður en við fórum af stað, þannig að stækkanir í orkuverum sem eru þegar í rekstri fari ekki í rammaáætlun. Við fáum í kjölfarið útgefið nýtingar- og virkjunarleyfi árið 2022 sem heimilaði þessa stækkun.“

Greinin birtist í sérblaðinu Samorkuþing 2025.