Tekjur Friðheima jukust um 247 milljónir, eða um 23%, milli áranna 2022 og 2023 og námu 1,3 milljörðum króna í fyrra. Félagið hefur aldrei verið með meiri veltu en í fyrra.
Friðheimar högnuðust um 46,7 milljónir króna í fyrra samanborið við 81,8 milljóna hagnað árið áður. Félagið hefur skilað hagnaði öll rekstrarár fyrir utan á Covid-árinu 2020.
Rekja má tekjuaukningu Friðheima að stærstum hluta til ferðaþjónustustarfsemi félagsins. Tekjur af ferðaþjónustu jukust um þriðjung milli ára og námu 836 milljónum. Tekjur af garðrækt jukust um 10% og námu 471 milljón.
Í skýrslu stjórnar segir að árið 2024 fari vel af stað. Áætlanir geri ráð fyrir um 200 milljóna króna aukningu í veltu milli ára.
Rekstrargjöld Friðheima jukust um 29% milli ára og námu 1,2 milljörðum króna. Stærsti kostnaðarliðurinn voru laun og tengd gjöld sem námu 608 milljónum. Stöðugildi að meðaltali fjölgaði úr 63 í 76 milli ára.
Opnuðu vínstofu í fyrra
Friðheimar í Reykholti í Bláskógabyggð er með vinsælli áfangastöðum ferðamanna á Suðurlandi, en þar eru ræktaðir tómatar allan ársins hring. Auk þess er veitingastaður í Friðheimum þar sem tómatarnir eru aðalþema matseðilsins. Þar er einnig stunduð hrossarækt og ferðamönnum boðið upp á hestasýningu á fjórtán tungumálum.
Stóra verkefnið hjá Friðheimum í fyrra var opnun vínstofuna um mitt ár. Félagið segir viðtökurnar hafa verið góðar en jafnframt sé áskorun í að ná jafnvægi í mönnun og rekstri. Í skýrslu stjórnar segir að áfram verði unnið að því að straumlínulaga reksturinn á vínstofunni.
„Áætlanir gera jafnframt ráð fyrir áframhaldandi fjárfestingum í rekstri félagsins, aðallega í tengslum við Vínstofuna en einnig verður haldið áfram með endurbætur á lýsingu og raflögnum í gróðurhúsunum.“
Eignir Friðheima voru bókfærðar á 823 milljónir króna í árslok 2023. Eigið fé jókst úr 148 milljónum í 195 milljónir milli ára. Félagið hyggst ekki greiða út arð í ár.
Hjónin Knútur Rafn Ármannsson, búfræðingur frá Hólum, og Helena Hermundardóttir, garðyrkjufræðingur frá Reykjum, eru eigendur Friðheima.