Héraðs­dómur Reykja­víkur komst að þeirri niður­stöðu í gær að af­greiðsla Alþingis um breytingar á búvörulögunum frá því í mars hafi ekki verið í samræmi við stjórnar­skrá. Lögin sem tóku gildi í apríl á þessu ári voru því felld.

Dóms­málið er afar sér­stakt þar sem ljóst er að báðir aðilar sem fóru með málið fyrir dóm höfðu lög­varða hags­muni af sömu niður­stöðunni.

For­saga málsins er sú að In­nes hf. kvartar til Sam­keppnis­eftir­litsins í júní og krefst íhlutunar gegn fram­leiðenda­félögunum á kjöt­vöru­markaði. Sam­keppnis­eftir­litið hafnar því að taka málið fyrir á grund­velli undanþágu­heimilda í nýju búvörulögunum.

Úr verður dóms­mál þar sem In­nes krefst þess fyrir dómi að fá niður­stöðu SKE hnekkt. Í um­sögnum sínum til Alþingis vegna breytinga á búvörulögum hefur Sam­keppnis­eftir­litið látið and­stöðu sína gagn­vart nýju búvörulögunum í ljós.

Þannig verður til dóms­mál þar sem In­nes og Sam­keppnis­eftir­litið mætast í dóms­sal og eru sammála í málinu.

Hæstaréttar­lög­menn sem Við­skipta­blaðið ræddi við í dag hafa sagt að það sé í raun „stórfurðu­legt“ að málinu hafi ekki verið vísað frá.

Hvorugur aðili í málinu hafi raun haft hag af því að halda uppi vörnum fyrir búvörulögunum, þó að rétt sé að taka það fram hér að það gerði SKE sannar­lega í málinu samkvæmt dóminum.

Hvorki In­nes né SKE höfðu hins vegar lög­varða hags­muni af því að lögin myndu halda gildi, sem sjáist best af þeirri stað­reynd að ólík­legt sé að því verði áfrýjað.

Héraðs­dómur hefði því átt að vísa málinu frá án kröfu.

Halldór Brynjar Halldórs­son, hæstaréttar­lög­maður og með­eig­andi á LOGOS lög­mannsþjónustu, segir dóms­málið afar sér­stakt.

„Þetta á í raun ekki að vera hægt. Það á ekki vera hægt að flytja mál þar sem aðilarnir hafa sömu hags­muni,“ segir Halldór. „Þetta er eins og fót­bolta­leikur þar sem 22 leik­menn eru í sókn en enginn í marki“, bætir hann við.

Halldór tekur fram að hann telji ekki rétt að hann tjái sig neitt um efni málsins, en hins vegar veki formið at­hygli.

Al­mennt sé það svo að aðilar eigi ekki að geta rekið dóms­mál nema það sé um skýrt af­markaða úr­lausn að ræða sem stefnandi hafi lög­varða hags­muni af.

Halldór Brynjar Halldórsson  hæstaréttar­lög­maður og með­eig­andi á LOGOS lög­mannsþjónustu.
Halldór Brynjar Halldórsson hæstaréttar­lög­maður og með­eig­andi á LOGOS lög­mannsþjónustu.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Sé krafan of al­menn, sé málum vísað frá þar sem þau teljist fela í sér lög­spurningu sem dómstólar leysi ekki úr. Krafan þurfi því að vera sértæk og þá þurfi að stefna þeim aðilum sem hin sértæka krafa beinist að.

Nefna ekki KS í stefnu sem fær þá ekki að taka til varna

Í því sam­hengi vekur það at­hygli að In­nes ákvað að krefjast inn­grips af hálfu Sam­keppnis­eftir­litsins í „hátt­semi fram­leiðenda­félaga“ en félagið nefnir ekki sér­stak­lega kaup Kaup­félags Skag­firðinga á Kjarnafæði-Norð­lenska sem voru gerð á grund­velli undanþágunnar í búvörulögum.

Hefði Inn­nes nefnt þann sam­runa sér­stak­lega sem ætla megi að kvörtun þeirra snúist um hefði átt að stefna KS eða Kjarnafæði inn í málið og félagið hefði þá getað haldið uppi vörnum fyrir breytingunum á búvörulögunum.

Þannig varð úr sú staða að enginn aðili sem hafði lög­varða hags­muni af því að lögin héldu gildi sínu átti aðild að málinu.

SKE þarf að áfrýja

Þórarinn Ingi Péturs­son, þing­maður Framsóknar og for­maður at­vinnu­vega­nefndar, sagði í sam­tali við mbl.is í gær að hann væri ósammála niður­stöðu héraðs­dóms í málinu.

Hann sagði lög­fræðinga nefndar­sviðs hafa farið ítar­lega yfir breytingarnar í nefndinni og komist að þeirri niður­stöðu að þær færu ekki út fyrir laga­ramma.

„Áður en við tókum málið út úr nefndinni var farið yfir það af þessum lög­fræðingum hvort að málið stæðist og það var niður­staðan að svo væri. Þar af leiðandi hélt málið áfram,“ segir Þórarinn.

„Þar af leiðandi kemur þetta mér í sjálfu sér á óvart.“

Þórarinn sagði að honum fyndist eðli­legt að Sam­keppnis­eftir­litið áfrýjaði niður­stöðunni en líkt og fram hefur komið hefur SKE enga hags­muni af því.