Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í gær að afgreiðsla Alþingis um breytingar á búvörulögunum frá því í mars hafi ekki verið í samræmi við stjórnarskrá. Lögin sem tóku gildi í apríl á þessu ári voru því felld.
Dómsmálið er afar sérstakt þar sem ljóst er að báðir aðilar sem fóru með málið fyrir dóm höfðu lögvarða hagsmuni af sömu niðurstöðunni.
Forsaga málsins er sú að Innes hf. kvartar til Samkeppniseftirlitsins í júní og krefst íhlutunar gegn framleiðendafélögunum á kjötvörumarkaði. Samkeppniseftirlitið hafnar því að taka málið fyrir á grundvelli undanþáguheimilda í nýju búvörulögunum.
Úr verður dómsmál þar sem Innes krefst þess fyrir dómi að fá niðurstöðu SKE hnekkt. Í umsögnum sínum til Alþingis vegna breytinga á búvörulögum hefur Samkeppniseftirlitið látið andstöðu sína gagnvart nýju búvörulögunum í ljós.
Þannig verður til dómsmál þar sem Innes og Samkeppniseftirlitið mætast í dómssal og eru sammála í málinu.
Hæstaréttarlögmenn sem Viðskiptablaðið ræddi við í dag hafa sagt að það sé í raun „stórfurðulegt“ að málinu hafi ekki verið vísað frá.
Hvorugur aðili í málinu hafi raun haft hag af því að halda uppi vörnum fyrir búvörulögunum, þó að rétt sé að taka það fram hér að það gerði SKE sannarlega í málinu samkvæmt dóminum.
Hvorki Innes né SKE höfðu hins vegar lögvarða hagsmuni af því að lögin myndu halda gildi, sem sjáist best af þeirri staðreynd að ólíklegt sé að því verði áfrýjað.
Héraðsdómur hefði því átt að vísa málinu frá án kröfu.
Halldór Brynjar Halldórsson, hæstaréttarlögmaður og meðeigandi á LOGOS lögmannsþjónustu, segir dómsmálið afar sérstakt.
„Þetta á í raun ekki að vera hægt. Það á ekki vera hægt að flytja mál þar sem aðilarnir hafa sömu hagsmuni,“ segir Halldór. „Þetta er eins og fótboltaleikur þar sem 22 leikmenn eru í sókn en enginn í marki“, bætir hann við.
Halldór tekur fram að hann telji ekki rétt að hann tjái sig neitt um efni málsins, en hins vegar veki formið athygli.
Almennt sé það svo að aðilar eigi ekki að geta rekið dómsmál nema það sé um skýrt afmarkaða úrlausn að ræða sem stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af.
Sé krafan of almenn, sé málum vísað frá þar sem þau teljist fela í sér lögspurningu sem dómstólar leysi ekki úr. Krafan þurfi því að vera sértæk og þá þurfi að stefna þeim aðilum sem hin sértæka krafa beinist að.
Nefna ekki KS í stefnu sem fær þá ekki að taka til varna
Í því samhengi vekur það athygli að Innes ákvað að krefjast inngrips af hálfu Samkeppniseftirlitsins í „háttsemi framleiðendafélaga“ en félagið nefnir ekki sérstaklega kaup Kaupfélags Skagfirðinga á Kjarnafæði-Norðlenska sem voru gerð á grundvelli undanþágunnar í búvörulögum.
Hefði Innnes nefnt þann samruna sérstaklega sem ætla megi að kvörtun þeirra snúist um hefði átt að stefna KS eða Kjarnafæði inn í málið og félagið hefði þá getað haldið uppi vörnum fyrir breytingunum á búvörulögunum.
Þannig varð úr sú staða að enginn aðili sem hafði lögvarða hagsmuni af því að lögin héldu gildi sínu átti aðild að málinu.
SKE þarf að áfrýja
Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar og formaður atvinnuveganefndar, sagði í samtali við mbl.is í gær að hann væri ósammála niðurstöðu héraðsdóms í málinu.
Hann sagði lögfræðinga nefndarsviðs hafa farið ítarlega yfir breytingarnar í nefndinni og komist að þeirri niðurstöðu að þær færu ekki út fyrir lagaramma.
„Áður en við tókum málið út úr nefndinni var farið yfir það af þessum lögfræðingum hvort að málið stæðist og það var niðurstaðan að svo væri. Þar af leiðandi hélt málið áfram,“ segir Þórarinn.
„Þar af leiðandi kemur þetta mér í sjálfu sér á óvart.“
Þórarinn sagði að honum fyndist eðlilegt að Samkeppniseftirlitið áfrýjaði niðurstöðunni en líkt og fram hefur komið hefur SKE enga hagsmuni af því.