„Námur í heiminum eru með styttri líftíma og það eru fáar námur að opna í staðinn fyrir þær sem klárast. Það er vandamálið,“ segir Eldur Ólafsson forstjóri málmleitarfyrirtækisins Amaroq Minerals, þegar hann er spurður út í stöðuna í geiranum.
„Síðustu tíu ár hefur fjárfesting í námum verið lök og málmverð haldist lágt. Á meðan verð eru lág er engin ástæða fyrir námuvinnslufyrirtækin að leita að nýjum málmi. Námurnar fara þá að klárast og það verður dýrara og erfiðara að komast að málmunum,“ bætir Eldur við.
Raunar hefur þróunin síðustu áratugina verið sú að hlutfall málma af hverju tonni af steinum sem grafið er ofan í jörðu hefur lækkað jafnt og þétt. Það hefur bæði þau áhrif að kostnaðurinn við námuvinnslunna eykst og umhverfisáhrifin verða meiri þar sem meira þarf að grafa til að ná sömu afköstum.
„Á sama tíma og námurnar eru að verða dýrari og erfiðari umfangs er ekki verið að leita að nýjum svæðum og við það myndast framboðsvandamál,“ segir Eldur.
Hann segir að ef lönd ætli í rafvæðingu feli það í sér verulega aukna notkun á málmum á borð við kopar og nikkel.
„Olía geymist í tunnum en rafmagn geymist í batteríum, og þessi batterí eru framleidd með málmum. Því mun eftirspurnin bara aukast eftir þessum málmum, en nú þegar er ekki nægt framboð af þeim til að fullnægja eftirspurninni.“
Nánar er rætt við Eld í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út miðvikudaginn 19. apríl.