Vladimír Pútín sór í vikunni embættiseið í fimmta skiptið og verður hann nú forseti Rússlands næstu sex árin.
Bandarísk stjórnvöld sem og flest ríki Evrópusambandsins sniðgengu innsetningarathöfnina. Leikarinn Steven Seagal var þó mættur til Moskvu en hann hefur verið einarður stuðningsmaður Pútíns um árabil. Hann er svo mikill vinur Rússa að hann heimsótti rússneskar hersveitir í Donbas í Úkraínu, skömmu eftir innrás þeirra í landið. Þess má geta að frægasta bíómynd Seagal er einmitt „Under Siege“ sem í íslenskri þýðingu nefnist Umsátrið.
Seagal, sem er fæddur í Bandaríkjunum, er einnig serbneskur og rússneskur ríkisborgari. Pútín afhenti honum persónulega rússneskt vegabréf árið 2016. Þá hefur Pútín einnig sæmt Seagal rússnesku Vinaorðunni svokölluðu fyrir þýðingarmikið framlag hans í að efla vináttu og samvinnu þjóða.