„Við þjónustum að mestu leyti vinnustaði og okkar fagsvið er heilbrigði og velferð innan vinnustaða. Við sinnum bæði starfsfólki vinnustaðanna en ekki síður stjórnendum, í gegnum ráðgjöf og fræðslu,“ segir Valgeir Sigurðsson, framkvæmdastjóri Vinnuverndar, í viðtali í sérblaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri sem kom út í síðustu viku.
„Markmið okkar er að stuðla að heilbrigðum og öruggum vinnustöðum og að auka vellíðan þeirra sem starfa innan vinnustaðanna. Hjá okkur starfar heilbrigðismenntað fólk sem sérhæfir sig í þjónustu við atvinnulífið, svið sem er að vaxa.“ Valgeir segir að á síðustu árum hafi orðið mikil vitundarvakning og hugarfarsbreyting í samfélaginu og á vinnumarkaði. Fyrirtæki séu farin að hlúa enn betur að sínum mannauði.
„Vissulega skiptir þetta máli fyrir einstaklingana innan vinnustaðanna og fyrirtækið sjálft, en svo má líka segja að þetta sé hluti af samfélagslegri ábyrgð að efla starfsfólkið sem að verður á endanum heilbrigðara og hamingjusamari samfélagsþegnar fyrir vikið. Enn fremur er þetta liður í samkeppnisforskoti vinnustaðanna. Þarna eru fyrirtæki að slá tvær flugur í einu höggi, annars vegar að veita starfsfólki aukna þjónustu og hins vegar að styrkja það og efla í gegnum sitt starf.“
Vinnuvernd hefur samið við fjölbreyttan hóp fyrirtækja, og má segja að félagið sinni þverskurði atvinnulífsins. „Við erum með samninga við fjölmarga vinnustaði og er þjónustan skilgreind með hverju og einu fyrirtæki. Því höfum við ekki verið með eina uppskrift fyrir alla, heldur aðlögum við þjónustuna að okkar viðskiptavinum,“ segir Valgeir. Auk þess að vera með samninga við fyrirtæki selur Vinnuvernd einnig einstaka þjónustuliði til fyrirtækja. „Fyrirtækin sem við þjónustum eru mjög fjölbreytt, af öllum stærðum, gerðum og ólíkum sviðum. Það má í raun segja að við sinnum þverskurði atvinnulífsins.“
Fjölbreyttur hópur sérfræðinga
Hjá Vinnuvernd starfa sérfræðingar á borð við lækna, sálfræðinga, hjúkrunarfræðinga og annað heilbrigðismenntað fólk.
„Við erum með öflugan og reynslumikinn hóp lækna sem sinnir fjölbreyttum verkefnum, til dæmis heilbrigðisskoðunum, trúnaðarlæknaþjónustu og mat á starfsgetu fólks. Þeir hafa einnig sinnt verkefnum í tengslum við myglu á vinnustöðum auk ýmissa sértæka athugana. Hjúkrunarfræðingarnir okkar sjá meðal annars um inflúensubólusetningar á vinnustöðum, stórt verkefni sem þarfnast mikillar skipulagningar. Síðan má nefna heilsufarsathuganir og heilsumat sem einnig eru framkvæmd á vinnustöðunum. Það má hrósa fyrirtækjum landsins fyrir það hve mörg þeirra hafa sinnt vel fyrirbyggjandi starfi í þessum efnum, það skilar þeim ávinningi en líka ávinningi í samfélagið okkar.“
Valgeir segir félagið hafa lagt áherslu að undanförnu á að byggja upp sálfræðiteymið, en hjá Vinnuvernd starfa fimm sálfræðingar sem sinna einstaklingsviðtölum. „Það hefur færst mjög í vöxt að vinnustaðir bjóða sínu starfsfólki upp á beint aðgengi að sálfræðingum.“
Hann bætir við að mikill vilji sé hjá fyrirtækjum að efla jákvæða menningu innan vinnustaða. Fyrirtæki vilji nýta sér ráðgjöf varðandi samskipti, menningu og aðra sálfélagslega þætti. „Við höfum einnig fundið að stjórnendur eru í auknum mæli að leita eftir ráðgjöf frá sálfræðiteymi okkar við erfið eða viðkvæm málefni sem geta komið upp innan fyrirtækja eða þarf að skapa farveg fyrir vegna samfélagsbreytinga. Í slíkum málefnum getur það verið dýrmætur stuðningur fyrir stjórnendur að fá hlutlausan fagaðila til að koma að borðinu og aðstoða við úrlausn.“
Vinnuvernd býður líka upp á fjölmörg fræðsluerindi sem Valgeir segir að séu mjög vinsæl hjá vinnustöðunum, til dæmis í tengslum við samskipti en einnig námskeið í skyndihjálp. Þá er nýbyrjað svokallað starfslokanámskeið á vegum félagsins sem undirbýr fólk undir það að hætta á vinnumarkaði. „Þetta er hugsað fyrir fólk eldra en sextíu ára og höfum við viljað fá fólk fyrr inn en seinna, ekki endilega þegar það hefur hætt störfum. Það er ýmislegt sem fólk þarf að undirbúa og hugsa út í varðandi starfslokin, meðal annars í tengslum við fjármálin en einnig lífið sjálft eftir starfslokin.“
Sýna ábyrgð í fjármálum
Velta Vinnuverndar nam 292 milljónum árið 2021 og hagnaðurinn 16,5 milljónum. Þá námu eignir félagsins í árslok 90 milljónum króna og eiginfjárhlutfallið 64%. Valgeir segir traustan rekstur vera forsendu fyrir góðri þjónustu félagsins.
„Við höfum lagt okkur fram um að sýna ábyrgð í rekstri og munum gera það áfram. Að okkar mati er það mikilvægt í stóru myndinni að sýna ábyrgð í fjármálunum alveg eins og í öðru sem við erum að fást við.“
Nýlega komu tveir nýir stjórnendur inn í framkvæmdastjórn félagsins, þær Harpa Þöll Gísladóttir og Ása Inga Þorsteinsdóttir, sem Valgeir segir að muni styrkja félagið inn á við og hjálpa því að þróast og auka þjónustuframboð til að mæta eftirspurn viðskiptavina. Valgeir segir starfsemi félagsins byggja fyrst og fremst á starfsfólkinu og þekkingunni sem það býr yfir, en tæplega þrjátíu manns starfa fyrir Vinnuvernd. Frá stofnun hafa bæði verkefni og umfang fyrirtækisins breyst mikið og segir Valgeir fyrirtækið stærra, öflugra og með sterkari starfsmannahóp í dag samanborið við fyrstu ár félagsins.
Blaðið er opið öllum og hægt er að nálgast það hér.