Hlutabréf laxeldisfélagsins Kaldvíkur, sem áður bar nafnið Ice Fish Farm og þar áður Fiskeldi Austfjarða, verða tekin til viðskipta á First North markaði Kauphallarinnar í nýliðinni viku. Kaldvík er einnig skráð á norska hlutabréfamarkaðinn Euronext Growth Oslo.
Aðspurður segir Guðmundur Gíslason, forstjóri Kaldvíkur, stöðu félagsins í dag góða. Það hafi að undanförnu lagt mikið púður í að styrkja landeldishluta sinn. „Við höfum viljað auka umfangið þar til þess að geta sett stærri fiska í sjókvíarnar. Heildareldistíminn er og verður áfram svipaður en með því að lengja tíma laxins á landi og stytta í sjó náum við að minnka áhættu í rekstrinum. Íslenskar aðstæður henta vel fyrir landeldi og því tilvalið fyrir okkur að nýta þann kost enn betur.“ Til standi að halda áfram að fjárfesta í landeldinu til að stækka seiðin og stytta veru þeirra í sjó.
Að auki hafi Kaldvík lagt ríka áherslu á að auka skilvirkni framleiðslunnar. „Við sjáum fram á talsverða framleiðsluaukningu og um leið aukna stærðarhagkvæmni. Framleiðslan er sífellt að verða betri.“
Með starfsemi í flestum landshlutum
Kaldvík er eina laxeldisfélagið á öllum Austfjörðum. Félagið er með leyfi til þess að ala rúmlega 43.800 tonn af laxi auk þess sem 10.000 tonna leyfi bíður staðfestingar. Félagið stefnir á að slátra um 21.500 tonnum á árinu 2024. Þó meginþungi starfsemi félagsins sé á Austfjörðum bendir Guðmundur á að það sé með starfsemi í flestum landshlutum. „Við erum með seiðastöðvar í Þorlákshöfn og fyrir norðan við Kópasker og Risfós í Kelduhverfi. Það eru rétt um 200 manns sem vinna hjá félaginu víða um land.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.