Stjarnan ehf., rekstraraðili Subway á Íslandi, hagnaðist um 128 milljónir króna eftir skatta í fyrra, samanborið við 113 milljóna hagnað árið áður.

Velta Stjörnunnar jókst um 13% milli ára og nam 2.169 milljónum króna í fyrra. Rekstrargjöld jukust um 15% frá fyrra og námu 1.997 milljónum. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) lækkaði því úr 184 milljónum í 172 milljónir milli ára.

Stjarnan rekur 15 Subway veitingastaði á Íslandi og var fjöldi þeirra óbreyttur frá fyrra ári. Í skýrslu stjórnar í ársreikningi félagsins kemur fram að það hafi endurnýjað veitingastaði sína í Hamraborg og Mjóddinni á árinu 2023.

Stjórn félagsins leggur til að allur hagnaður þess í fyrra verði greiddur til móðurfélagsins í ár, að því er kemur fram í nýbirtum ársreikningi. Á síðasta ári greiddi Stjarnan út nær allt óráðstafað eigið fé félagsins, eða 539 milljónir króna, í arð til móðurfélagsins Leiti eignarhaldsfélags, sem er alfarið í eigu Skúla Gunnars Sigfússonar sem er gjarnan kenndur við Subway.

Eignir Stjörnunnar voru bókfærðar á 331 milljón í árslok 2023 samanborið við 683 milljónir árið áður. Eigið fé félagsins nam 128 milljónum í lok síðasta árs.

Tveggja milljarða fasteignsafn

Leiti eignarhaldsfélag, móðurfélag Stjörnunnar, hagnaðist um 277 milljónir króna árið 2023 samanborið við 813 milljónir árið áður.

Eignir Leitis voru bókfærðar á 4,2 milljarða króna í árslok 2023. Þar af voru átján fasteignir sem voru metnar á rúma 2 milljarða króna en hluti þeirri hýsir veitingastaði Subway.

Samstæða Leitis eignarhaldsfélags inniheldur eignarhluti í á öðrum tug félaga. Meðal þeirra er Hótel Jökulsárlón sem hefur unnið að byggingu 120 herbergja hótels á Reynivöllum, skammt frá Jökulsárlóni. Í umfjöllun RÚV í lok síðasta árs kom fram að hótelið myndi kosta yfir 4 milljarða króna.

Leiti eignaðist 90% hlut í Seljalandsseli ehf. í fyrra sem er nú hluti af samstæðunni. Með kaupunum varð Skúli Gunnar stærsti einstaki eigandinn í Seljalandsfossi, að því er Heimildin greindi frá. Skuli hafði skömmu áður keypt jörðina Eystra-Seljaland og hann nú rífleag 40% hlut í fossinum.