Markaðsaðilar virðast svartsýnni um þróun verðbólgunnar samanborið við Seðlabankann ef marka má könnun Viðskiptablaðsins.

Verðbólga um áramótin stóð í 9,6% og hefur ekki verið hærri í lok árs frá árinu 2008. Markaðsaðilarnir sem svöruðu könnuninni spá að meðaltali 5,78% verðbólgu í lok árs, og liggur miðgildi svaranna í 5-6% verðbólgu.

Til samanburðar spáir Seðlabankinn 4,4% verðbólgu á fjórða ársfjórðungi. Á sama tíma er einungis 20% þátttakenda könnunarinnar sem telja að verðbólgan verði komin undir 5% í lok árs.

Stýrivextir lækki hægt

Stýrivextir standa nú í 6,0%. 80% þátttakenda könnunarinnar telja að vextirnir verði á bilinu 5-7% í lok árs, en spá að meðaltali 5,6% stýrivöxtum í lok árs, og liggur miðgildi svaranna í 5-6%.

Það er mjög líkt spám bankanna. Landsbankinn spáði í október að vextirnir yrðu 5,25% í lok ár 2023, en þá voru þeir 5,75% og ekki útlit fyrir frekari hækkanir. Arion spáði óbreyttum vöxtum á árinu 2023 og þá spáði Íslandsbanki að meðaltali 5,9% vöxtum á árinu.

Nánar er fjallað um könnunina í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.