Rekstrartekjur Sven ehf., sem á og rekur verslunina Svens en sú sýslar með nikótínpúða, námu 311 milljón krónum á fyrsta starfsári sínu. Endanleg afkoma var 27,7 milljón króna hagnaður.

Kennitala Sven var stofnuð í apríl á síðasta ári og spanna tekjurnar því aðeins um tvo þriðju síðasta árs. Kostnaðarverð seldra vara nam 229 milljónum og laun og launatengd gjöld átta starfsmanna 20,9 millljónum. EBITDA félagsins var jákvæð um tæplega 41 milljón króna.

Eignir félagsins voru metnar á 78,6 milljónir í ársbyrjun 2021 en stærstur hluti þess voru vörubirgðir fyrir ríflega 47 milljónir. Fastafjármunir námu 17,3 milljónum. Eigið fé var jákvætt um 28,7 milljónir en skuldir voru í formi tæplega 50 milljóna skammtímaskulda.

Eigendur Svens eru hið sænska Sideways 1618 AB, sem á 40%, og þá á Media Center ehf., í fullri eigu Ragnars Orra Benediktssonar, jafn mikið. Afgangurinn er í eigu OP ehf. en það er samkvæmt fyrirtækjaskrá er í eigu Matthíasar Björnssonar. Samkvæmt skráningu fyrirtækjaskrár eru raunverulegir eigendur Svens Kristján Ragnar Kristjánsson, með 51% hlut, og fyrrnefndur Ragnar Orri með 49%.