Aðalhagfræðingur Kviku banka, Hafsteinn Hauksson, telur að svigrúm sé að myndast fyrir peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands til að lækka stýrivexti um 175-200 punkta á næsta ári „sem samsvarar um 25-50 punkta lækkun á öllum fundum nefndarinnar á árinu 2025“.

Í bréfi til viðskiptavina Kviku segist Hafsteinn ekki eiga von á því að næstu fundir peningastefnunefndar Seðlabankans verði neinir kleinufundir (vísun í orð Rannveigar Sigurðardóttur), enda sé 0,5 prósenta vaxtalækkun bankans í gær „staðfesting á því að vaxtalækkunarferlið sé nú komið á skrið“.

„Við tekur löng vegferð í átt að jafnvægisvöxtum hagkerfisins, nema óvænt bakslag komi í hjöðnun verðbólgu á komandi mánuðum, og því snýr helsta óvissan nú að hraða vaxtalækkunarferlisins og stærð skrefa nefndarinnar.“

Verðbólguspá Seðlabankans í það bjartsýnasta

Hagsteinn sagði að ákvörðun nefndarinnar um að lækka stýrivexti um 50 punkta, úr 9,0% í 8,5%, hafi ekki komið verulega á óvart þrátt fyrir að hann hefði frekar búist við 25 punktum, enda hafi þrýstingur á myndarlega vaxtalækkun aukist samhliða nýlegri hjöðnun mældrar verðbólgu.

„Eitt og annað í yfirlýsingu nefndarinnar kom okkur þó á óvart. Okkur þótti ekki augljóst af yfirlýsingunni hví nefndin ákvað að stíga stærra skref nú en á síðasta fundi sínum, þrátt fyrir að raunvextir bankans hafi verið metnir þeir sömu í aðdraganda beggja funda.“

Hagsteinn segir að ákvörðun nefndarinnar að stíga stærra skref skýrist líklega einkum af mun bjartsýnni verðbólguspá Seðlabankans til næstu 12 mánaða og kólnun á fasteignamarkaði í aðdraganda fundarins.

„Er það að okkar mati til marks um aukna framsýni og minnkandi áhyggjur af bakslagi innan nefndarinnar.“

Í Peningamálum, riti sem Seðlabankinn birti í gær, má finna nýja verðbólguspá sem er nokkuð bjartsýnni en fyrri spá bankans fyrir næstu ársfjórðunga. Seðlabankinn spáir að verðbólga verði í 3,2% undir árslok 2025, en til samanburðar gerði ágústspá bankans ráð fyrir 3,6% verðbólgu í lok næsta árs.

Ný verðbólguspá Seðlabankans.

„Þótt okkur þyki verðbólguspá Seðlabankans orðin í það bjartsýnasta teljum við engu að síður nær öruggt að verðbólga lækki nægilega til að styðja við frekari vaxtalækkanir á næstu fundum nefndarinnar,“ skrifar Hafsteinn.

„Þótt við gerum einnig ráð fyrir að skarpri lækkun verðbólgunnar næstu mánuði kom okkur á óvart hve mikið verðbólguspá bankans lækkaði næsta árið, ekki síst því spá um öra hjöðnun verðbólgunnar fer saman við meiri framleiðsluspennu, meiri launakostnað á framleidda einingu og minna atvinnuleysi en í ágústspá bankans.“