Sex hafa verið ákærðir af sérstökum saksóknara í Danmörku fyrir fjársvik sem tengjast tveimur af stærstu bönkum Danmerkur. Hópurinn er sagður hafa svikið út um 150 milljónir danskra króna eða um 3 milljarða íslenskra króna með því að falsa gögn í tengslum við húsnæðislán.
Hópurinn samanst af hjónum og fjórum karlmönnum en tveir mannanna unnu hjá Nordea og Danske Bank þegar svikamyllan hófst.
Samkvæmt danska viðskiptamiðlinum Børsen hefur efnahagsbrotadeild lögreglunnar verið að rannsaka svikamylluna í þó nokkur ár og bar aðgerð lögreglunnar heitið „Operation Bovia.”
Það sem gerir málið sérstakt að sögn Børsen er að það er afar sérstakt í Danmörku að bankastarfsmenn fremji afbrot af þessum toga í starfi en tveir hinna ákærðu voru enn starfandi hjá tveimur af stærstu bönkum Danmerkur þegar þeir voru handteknir.
Anita Nedergaard, sem sér um eftirlit með peningaþvætti hjá Nordea, varaði við því í fyrra að það væri mikil hætta í Danmörku að glæpahópar gætu komið sér fyrir innan bankans.
Í Svíþjóð hafa þegar komið upp nokkur dæmi um bankastarfsmenn sem hafa í samvinnu við glæpamenn svikið út fé af bönkum og viðskiptavinum þeirra um háar fjárhæðir.
Samkvæmt heimildum Børsen hafa fimm af þeim sex sem hafa verið ákærðir unnið að minnsta kosti hluta af starfsævi sinni í dönskum bankageira.
Nokkrir þeirra hafa stundað nám við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn (Copenhagen Business School).
Um er að ræða fimm karla og eina konu sem eru sameiginlega ákærð fyrir að falsa ýmis mikilvæg skjöl í tengslum við húsnæðislán en hópurinn er sagður hafa framleitt falsaða launaseðla og ársskýrslur, sem notaðar voru til að tryggja stærri lán en viðskiptavinir bankans höfðu raunverulegan rétt á.
Samkvæmt heimildum Børsen er hópurinn einnig grunaður um peningaþvætti.
Sem fyrr segir störfuðu tveir hinna ákærðu hjá Nordea þegar svikin áttu sér stað en annar þeirra fór síðar til Danske Bank. Stærsti banki Danmerkur tekur málið mjög alvarlega:
„Allar framfarir í rannsókninni eru góð tíðindi, jafnvel þó þær tengist því miður samstarfsmanni eins og í þessu tilfelli. Það verður hins vegar ljóst að samstarf innan Odin-verkefnisins skilar árangri og að glæpamönnum gengur erfiðlega að komast fram hjá eftirliti bankanna. Þetta styrkir okkur í þeirri trú að við getum barist gegn glæpamönnum mun betur þegar við vinnum saman og deilum upplýsingum,“ segir Casper Collin Scheel-Lyngbye, sérfræðingur í vörnum gegn svikum hjá Danske Bank, við Børsen.