Sex hafa verið ákærðir af sér­stökum saksóknara í Dan­mörku fyrir fjár­svik sem tengjast tveimur af stærstu bönkum Dan­merkur. Hópurinn er sagður hafa svikið út um 150 milljónir danskra króna eða um 3 milljarða ís­lenskra króna með því að falsa gögn í tengslum við húsnæðislán.

Hópurinn saman­st af hjónum og fjórum karl­mönnum en tveir mannanna unnu hjá Nor­dea og Danske Bank þegar svika­myllan hófst.

Sam­kvæmt danska við­skipta­miðlinum Børsen hefur efna­hags­brota­deild lög­reglunnar verið að rann­saka svika­mylluna í þó nokkur ár og bar að­gerð lög­reglunnar heitið „Operation Bovia.”

Það sem gerir málið sér­stakt að sögn Børsen er að það er afar sér­stakt í Dan­mörku að banka­starfs­menn fremji af­brot af þessum toga í starfi en tveir hinna ákærðu voru enn starfandi hjá tveimur af stærstu bönkum Dan­merkur þegar þeir voru hand­teknir.

Anita Ne­derga­ard, sem sér um eftir­lit með peningaþvætti hjá Nor­dea, varaði við því í fyrra að það væri mikil hætta í Dan­mörku að glæpa­hópar gætu komið sér fyrir innan bankans.

Í Svíþjóð hafa þegar komið upp nokkur dæmi um banka­starfs­menn sem hafa í sam­vinnu við glæpa­menn svikið út fé af bönkum og við­skipta­vinum þeirra um háar fjár­hæðir.

Sam­kvæmt heimildum Børsen hafa fimm af þeim sex sem hafa verið ákærðir unnið að minnsta kosti hluta af starfsævi sinni í dönskum banka­geira.

Nokkrir þeirra hafa stundað nám við Við­skipta­háskólann í Kaup­manna­höfn (Copen­hagen Business School).

Um er að ræða fimm karla og eina konu sem eru sam­eigin­lega ákærð fyrir að falsa ýmis mikilvæg skjöl í tengslum við húsnæðislán en hópurinn er sagður hafa fram­leitt falsaða launa­seðla og árs­skýrslur, sem notaðar voru til að tryggja stærri lán en við­skipta­vinir bankans höfðu raun­veru­legan rétt á.

Sam­kvæmt heimildum Børsen er hópurinn einnig grunaður um peningaþvætti.

Sem fyrr segir störfuðu tveir hinna ákærðu hjá Nor­dea þegar svikin áttu sér stað en annar þeirra fór síðar til Danske Bank. Stærsti banki Dan­merkur tekur málið mjög al­var­lega:

„Allar fram­farir í rannsókninni eru góð tíðindi, jafn­vel þó þær tengist því miður sam­starfs­manni eins og í þessu til­felli. Það verður hins vegar ljóst að sam­starf innan Odin-verk­efnisins skilar árangri og að glæpamönnum gengur erfiðlega að komast fram hjá eftir­liti bankanna. Þetta styrkir okkur í þeirri trú að við getum barist gegn glæpamönnum mun betur þegar við vinnum saman og deilum upp­lýsingum,“ segir Ca­sper Collin Scheel-Lyng­bye, sér­fræðingur í vörnum gegn svikum hjá Danske Bank, við Børsen.