Íslenska fyrirtækið Swapp Agency, sem býður fyrirtækjum lausn við að halda utan um starfsfólk í fjarvinnu í öðrum löndum og greiða því sem launþegum, hefur hafið starfsemi í Noregi. Þar með er Swapp Agency komið með starfsemi á öllum Norðurlöndunum, en fyrirtækið starfaði fyrir í Finnlandi, Svíþjóð og Danmörku auk Íslands og Færeyja. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Flækjustigið er oft hátt þegar kemur að fjarvinnu á milli landa og fyrirtæki þurfa að ákveða hvort þau vilji stofna félag í því landi sem starfsfólk sinnir sínu starfi eða að starfsfólkið gerist verktakar. Margir Íslendingar flytjast árlega til Norðurlandanna og með aðstoð Swapp Agency geta fyrirtæki haldið lykilstarfsmönnum í starfi á einfaldan, hagkvæman og löglegan hátt,“ segir í tilkynningu. 

Sjá einnig: Greiða leið hugvits milli landa

Swapp Agency gerir samninga við vinnuveitendur um að borga starfsfólki sem er í fjarvinnu í öðru landi laun. Þá greiðir félagið skatta og launatengd gjöld í því landi sem starfsmaðurinn starfar í. Með þessu verður starfsmaðurinn launþegi á einfaldan hátt í því landi sem hann starfar og nýtur allra réttinda launfólks á vinnumarkaði. 

Davíð Rafn Kristjánsson, annar stofnanda og framkvæmdastjóri Swapp Agency:

„Heimurinn er einfaldlega að breytast og störf eru ekki lengur bundin við staðsetningu vinnuveitandans. Það er virkilega spennandi að geta boðið íslenskum fyrirtækjum upp á þjónustu á öllum Norðurlöndunum. Þá er mikilvægt að starfsfólk glati ekki réttindum sínum og lendi utan við kerfið í því landi sem það starfar í, og okkar þjónusta miðar að því að aðstoða bæði fyrirtæki og starfsfólk við að klára verkefnið þannig að allir séu sáttir.“