Sylvía Krist­ín Ólafs­dótt­ir hef­ur verið ráðin for­stjóri Nova, eða Nóva klúbbsins hf., eins og félagið heitir fullu nafni. Tilkynnt var um ráðninguna í kauphallartilkynningu rétt í þessu.

Sylvía tekur við starf­inu af Mar­gréti Tryggva­dótt­ur sem til­kynnti fyrir skömmu að hún myndi láta af störf­um í lok árs. Hún mun hefja störf hjá Nova í haust.

Sylvía Kristín kemur til Nova frá Icelandair þar sem hún hefur starfað sem framkvæmdastjóri rekstrar. Áður starfaði hún sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og markaðsmála hjá Origo.

Sylvía starfaði einnig um árabil hjá Amazon, fyrst við rekstur og áætlanagerð og síðan við Kindle deild fyrirtækisins þar sem hún sá um viðskiptagreind og vöruþróun fyrir vefbækur auk þess að leiða greiningar- og stefnumótunarvinnu fyrir samningagerð við bókaútgefendur.

Sylvía er með M.Sc. próf í Operational Research frá London School of Economics og B.Sc. próf í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands.

Hún hefur sinnt stundakennslu við verkfræðideild HÍ í rekstrarfræði, kvikum kerfislíkönum og verkefnastjórnun.

Haft er eftir Sig­ríði Ol­geirs­dótt­ur, stjórn­ar­for­manni Nova, í tilkynningunni.

„Það er mik­ill feng­ur fyr­ir okk­ur að fá Sylvíu til liðs við Nova og eng­inn vafi á að hún er rétta mann­eskj­an til að taka við kefl­inu af Mar­gréti seinna á ár­inu. Sylvía býr yfir mik­illi þekk­ingu á rekstri og markaðsmá­l­um, auk mik­il­vægr­ar reynslu úr tækni- og hug­búnaðar­heim­in­um, þar sem fjöl­breytt, vel sam­sett teymi og góð innri menn­ing skap­ar ár­ang­ur.

Þessi þekk­ing mun koma sér vel nú þegar við tök­um stefn­una á enn frek­ari vöxt. Nova er í af­burðasterkri stöðu til að renna enn frek­ari stoðum und­ir sterk­an framtíðar­vöxt fé­lags­ins og við hlökk­um til næsta kafla í sögu Nova með Sylvíu."