Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,4% í 4,1 milljarðs króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Sextán af 22 félögum aðalmarkaðarins hækkuðu í viðskiptum dagsins. Hlutabréf Kviku banka voru þau einu sem féllu á aðalmarkaðnum.

Fjölmiðla- og fjarskiptafélagið Sýn leiddi hækkanir en gengi félagsins hækkaði um 6,6% í 290 milljóna veltu og stendur nú í 65 krónum á hlut. Gengi Sýnar hefur ekki verið hærra síðan í febrúar. Bréfin tóku að hækka rétt fyrir lokun Kauphallarinnar en eftir klukkan tvö fóru fram þrjú stór viðskipti með samtals 1,4% hlut í félaginu.

Sjá einnig: Gavia knýr fram hluthafafund hjá Sýn

Í byrjun vikunnar varð nýstofnaða fjárfestingafélagið Gavia Invest stærsti hluthafi Sýnar eftir að hafa keypt 12,7% hlut Heiðars Guðjónssonar, fráfarandi forstjóra Sýnar, fyrir ríflega 2,2 milljarða króna. Gavia, sem er komið með 16,1% hlut, hefur farið fram á að stjórn Sýnar boði til hluthafafundar þar sem ný stjórn verður kjörin. Í gær var svo send út flöggunartilkynning um að eignarhlutur sem skráður er á Arion banka hafi á síðustu dögum aukist úr 3,4% í 8,7% þar sem veltubækur bankans fóru yfir 5%.

Icelandair hækkaði næst mest af félögum aðalmarkaðarins eða um 2,8% í meira en hálfs milljarðs króna viðskiptum. Í gærkvöldi var tilkynnt um að Bain Capital, stærsti hluthafi Icelandair, hefði nýtt áskriftarréttindi og bætt við sig 3,6% hlut í flugfélaginu fyrir 2,3 milljarða króna. Gengi Icelandair stendur nú í 1,96 krónum á hlut. Hlutabréfaverð Play hækkaði einnig um 5% í 150 milljóna viðskiptum og stendur í 19,1 krónu á hlut.