Hlutabréfaverð Sýnar leiddi hækkanir á aðal­markaði í dag er gengi fjölmiðla- og fjar­skipta­félagsins hækkaði um 4% í 130 milljón króna við­skiptum.

Fjár­festingarfélagið Gavia Invest ehf., stærsti hlut­hafi Sýnar, stækkaði hlut sinn í fjar­skipta- og fjölmiðla­fyrir­tækinu í há­deginu er félagið keypti hlutabréf í Sýn fyrir 60 milljónir króna.

Gavia keypti tvær milljónir hluta á genginu 30,0 krónur á hlut. Eftir við­skiptin á Gavia 45.147.128 hluti, eða um 18,2% eignar­hlut í Sýn sem er hátt í 1,4 milljarðar króna að markaðsvirði.

Samhliða kaupum Gavia keypti Ragnar Páll Dyer hlutabréf í Sýn fyrir 6 milljónir króna í gegnum félagið sitt H33 Invest ehf. Ragnar keypti 200 þúsund hluti á genginu 30 krónur á hlut.

Dagsloka­gengi Sýnar var 30,8 krónur í dag.

Gengi Oculis lækkað um 18% í nóvember

Hluta­bréfa­verð Icelandair hækkaði um tæp 3% í 337 milljón króna við­skiptum. Gengi Icelandair hefur nú hækkað átta við­skipta­daga í röð og var dagsloka­gengið 1,27 krónur.

Gengi Ocu­lis leiddi lækkanir á aðal­markaði en gengi líftækni­lyfja­fyrir­tækisins fór niður um 4%.

Hluta­bréfa­verð Ocu­lis hefur nú lækkað um 18% í nóvember­mánuði. Dagsloka­gengi félagsins var 2020 krónur í dag en það stóð í 2460 krónum í byrjun mánaðar.

Hluta­bréf í félaginu hafa þó hækkað um 19% á árinu.

Daufur við­skipta­dagur í Kaup­höllinni

Úr­vals­vísi­talan lækkaði um 0,49% í við­skiptum dagsins en heildar­velta á hluta­bréfa­markaði nam 2,9 milljörðum króna.

Velta á aðal­markaði Kaup­hallarinnar hefur verið lítil í vikunni að undan­skilinni veltu með bréf Marels en líkt og Við­skipta­blaðið greindi frá í gær var yfir 14 milljarða króna velta með bréf félagsins sl. tíu við­skipta­daga.

Erlendir fjárfestingasjóðir eru þó þar á ferð.