Hlutabréfaverð Sýnar leiddi hækkanir á aðalmarkaði í dag er gengi fjölmiðla- og fjarskiptafélagsins hækkaði um 4% í 130 milljón króna viðskiptum.
Fjárfestingarfélagið Gavia Invest ehf., stærsti hluthafi Sýnar, stækkaði hlut sinn í fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækinu í hádeginu er félagið keypti hlutabréf í Sýn fyrir 60 milljónir króna.
Gavia keypti tvær milljónir hluta á genginu 30,0 krónur á hlut. Eftir viðskiptin á Gavia 45.147.128 hluti, eða um 18,2% eignarhlut í Sýn sem er hátt í 1,4 milljarðar króna að markaðsvirði.
Samhliða kaupum Gavia keypti Ragnar Páll Dyer hlutabréf í Sýn fyrir 6 milljónir króna í gegnum félagið sitt H33 Invest ehf. Ragnar keypti 200 þúsund hluti á genginu 30 krónur á hlut.
Dagslokagengi Sýnar var 30,8 krónur í dag.
Gengi Oculis lækkað um 18% í nóvember
Hlutabréfaverð Icelandair hækkaði um tæp 3% í 337 milljón króna viðskiptum. Gengi Icelandair hefur nú hækkað átta viðskiptadaga í röð og var dagslokagengið 1,27 krónur.
Gengi Oculis leiddi lækkanir á aðalmarkaði en gengi líftæknilyfjafyrirtækisins fór niður um 4%.
Hlutabréfaverð Oculis hefur nú lækkað um 18% í nóvembermánuði. Dagslokagengi félagsins var 2020 krónur í dag en það stóð í 2460 krónum í byrjun mánaðar.
Hlutabréf í félaginu hafa þó hækkað um 19% á árinu.
Daufur viðskiptadagur í Kauphöllinni
Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,49% í viðskiptum dagsins en heildarvelta á hlutabréfamarkaði nam 2,9 milljörðum króna.
Velta á aðalmarkaði Kauphallarinnar hefur verið lítil í vikunni að undanskilinni veltu með bréf Marels en líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gær var yfir 14 milljarða króna velta með bréf félagsins sl. tíu viðskiptadaga.
Erlendir fjárfestingasjóðir eru þó þar á ferð.