Fjölmiðla- og fjarskiptafélagið Sýn hefur tilkynnt um breytt skipurit á fjölmiðlarekstri sínum sem verður skipt upp í tvær sjálfstæðar rekstrareiningar. Þetta kemur fram í afkomutilkynningu félagsins.
Félagið hefur sett á laggirnar nýja rekstrareiningu sem ber nafnið „Vefmiðlar og útvarp” en þar undir verða rekstur Vísis og tengdra vefsíðna, rekstur Bylgjunnar og annarra útvarpsstöðva, auk hlaðvarpsveitunnar Tal ásamt Já.is, Bland og tengdra vörumerkja. Sýn segir að þessi nýja rekstrareining hafi orðið til eftir kaup félagsins á Já.is.
Þá verður Stöð 2 sjálfstæð rekstrareining „með áherslu á áskriftartekjur og innlenda dagskrárgerð“. Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar mun starfa þvert á þessar einingar.
Vilborg Helga Harðardóttir mun stýra rekstri Vefmiðla og útvarps. Vilborg hefur starfað sem forstjóri Já hf. síðan 2019 og þar áður gegndi hún stöðu rekstrarstjóra Já. Einnig starfaði Vilborg Helga í fjárstýringu hjá Straumi-Burðarási.
Eva Georgs Ásudóttir hefur verið ráðin sem stjórnandi Stöðvar 2. Eva hefur starfað sem framleiðslustjóri Stöðvar 2 frá árinu 2015 þar sem hún hefur leitt innleidda framleiðslu og þar áður starfaði hún á fréttastofu Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar.
„Með kaupunum á Já og sölutorginu Bland.is sjáum við mikil tækifæri í auglýsingum og annarri þjónustu til að styrkja stöðu okkar enn frekar á þeim markaði,“ segir Páll Ásgrímsson, starfandi forstjóri Sýnar.
„Við höldum áfram á þeirri vegferð að skerpa á tekjuskapandi rekstrareiningum og skiptum fjölmiðlunum upp í tvær sjálfstæðar rekstrareiningar, Vefmiðla og útvarp annars vegar og Stöð 2 hins vegar.“
Hagnaður Sýnar eykst
Sýn hagnaðist um 321 milljón króna eftir skatta á þriðja ársfjórðungi samanborið við 191 milljón á sama tíma í fyrra. Félagið birti uppgjör fyrir þriðja uppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í dag.
Velta félagsins jókst um 4,2% milli ára og nam 5.730 milljónum króna. Framlegð Sýnar jókst um 5,7% og nam 2.136 milljónum. Rekstrarhagnaður (EBIT) á þriðja fjórðungi var 592 milljónir samanborið við 486 milljónir á fyrra ári og jókst því um 22% milli ára.
EBIT-hagnaður á fyrstu níu mánuðum ársins námu 1.594 milljónum króna samanborið við 1.209 milljónum á sama tíma. Í afkomutilkynningu Sýnar segir að afkomuspá vegna ársins 2023 um 2.200-2.500 milljóna króna EBIT-hagnað sé óbreytt en samkvæmt mati stjórnenda megi búast við að niðurstaðan verði nær neðri mörkum.